Erlent

Óvæntur fundur á bókasafninu

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Síðurnar eru taldar vera um 1.370 ára gamlar.
Síðurnar eru taldar vera um 1.370 ára gamlar. nordicphotos/afp
Það sem er talið vera elsta útgáfa af Kóraninum sem vitað er af fannst óvænt á háskólabókasafninu í Birmingham.

Rannsakandinn Alba Fedeli rakst á síður úr Kóraninum fyrir slysni á bókasafninu og lét kolefnisgreina þær. Í ljós kom að síðurnar eru minnst 1.370 ára gamlar. Síðurnar voru faldar á meðal handrita frá miðöldum en talið er að þær hafi legið á bókasafninu í rúma öld.

Kolefnisgreiningar bentu til að síðurnar séu frá árunum rétt eftir dauða Múhameðs spámanns en spádómar hans eru megininnihaldið í texta Kóransins. Múslimar trúa því að textinn í Kóraninum sé boðskapur engilsins Gabríels sem birtist Múhameð yfir 22 ára tímabil frá árinu 610.

Muhammad Afzal, sérfræðingur bókasafnsins í fornum handritum, segir að fundurinn sé stórmerkilegur og ætti að vekja upp fögnuð meðal múslima. Hann segir að á þeim tíma sem handritið var skrifað hafi samfélög múslima verið afar fátæk og ekki haft burði til að fjölrita handrit af þessum toga. Því sé þetta eintak einstakt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×