Skoðun

Íþróttahreyfingin andleg veikindi og vanlíðan

Eymundur L.Eymundsson skrifar
Einstaklingar hafa stigið fram og miðlað af sinni reynslu af andlegum veikindum og vanlíðan til að opna umræðuna og hjálpa öðrum að leita sér aðstoðar. En hvað svo? Einn íþróttamaðurinn sagði að hann hefði mætt skilningsleysi þar sem honum var sagt að hætta þessu væli og rífa sig upp og hann er örugglega ekki sá fyrsti sem fær þessi skilaboð.

Það er nokkuð ljóst að menn væru ekki að tala um sín andlegu veikindi og vanlíðan ef það væri svo auðvelt að rífa sig bara upp. Hvað ætli séu mörg ungmenni og fullorðnir sem glíma við andleg veikindi eða vanlíðan innan íþróttahreyfingarinnar? Því miður veit maður af dæmum þar sem menn hætta vegna þess að þeir óttast viðbrögð liðsins og félagsins.

Þekki þetta sjálfur af eigin raun síðan ég var krakki að fela mín andlegu veikindi og vanlíðan sem hefði getað leitt til sjálfsvígs. En þá vissi maður ekki hvað þetta var og ég reikna með að ég hefði fengið þau viðbrögð að hætta þessu væli og rífa mig bara upp. Nú er árið 2015 og þekking meiri, en hvar stendur íþróttahreyfingin með þessi mál?

Hvernig er unnið með andleg veikindi og vanlíðan innan íþróttafélaga? Ef menn meiðast þá er fengin hjálp en ef um andlega veikindi og vanlíðan er að ræða hvað þá? Að nota grímu og fela sína vanlíðan til að falla í hópinn er engum til góðs og getur haft alvarlegar afleiðingar.

Íþróttahreyfingin er flott og gerir góða hluti en það er ekki þar með sagt að það sé ekki hægt að gera enn betur. Tölum saman og tökum þessa umræðu lengra um andleg veikindi og vanlíðan ungmenna og fullorðna. Væri gott að fá fræðslu þar sem einstaklingar sem hafa glímt við andleg veikindi og vanlíðan miðla af sinni reynslu í samvinnu með sálfræðingum og íþróttafélögum.

Skora á ÍSÍ að halda ráðstefnu um þessi mál sem snertir okkur öll. Ef andlegi hlutinn er ekki í lagi er ekkert í lagi og þú getur ekki notið þín eins vel í íþróttum og í lífinu yfirhöfuð. Stór hreyfing sem getur sýnt þar með fordæmi sem hreyfing án fordóma.

Gott væri þá að félagið og liðsmenn séu fyrsta hjálpin en til þess að svo verði þurfum við að taka höndum saman sem ein heild.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×