Menning

Sýnir einleik á stærstu listahátíð heims

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Bragi hefur í nógu að snúast þessa dagana.
Bragi hefur í nógu að snúast þessa dagana. Mynd/ Magnús Andersen
Bragi Árnason leikari verður með eitt af opnunaratriðum einleikshátíðarinnar Act Alone sem haldin verður á Suðureyri 5. til 9. ágúst. Strax eftir hátíðina flýgur hann til Edinborgar í Skotlandi þar sem hann kemur fram á Edinborgarhátíðinni, sem er stærsta listahátíð í heimi.

Bragi er búsettur í London en hann hefur verið þar seinustu átta ár þar sem hann hefur lært leiklist og starfað sem leikari og stuðningsfulltrúi.

Einleikurinn sem Bragi ætlar að sýna heitir Barry and His Guitar.

„Þetta er söngleikur þar sem lögin eru öll samin af mér og auðvitað einleikurinn sjálfur líka. Ég er líka með eina aðra sýningu í gangi með vini mínum sem heitir Euromen. Við erum búnir að vera að sýna hana í London. Þeir vildu fá hana líka á Edinborgarhátíðina en meðleikari minn komst því miður ekki. Ég veit um einn annan Íslending sem sýnir á hátíðinni en hún er í leiklistarskóla hér úti og mun koma fram í leikriti á vegum skólans.“

Plakatið fyrir einleik Braga sem kallast Barry and his guitar.Mynd/aðsend
Þetta verður í fyrsta skiptið sem Bragi kemur fram á Act Alone-hátíðinni en hann verður með eitt af opnunaratriðunum.

„Ég kem fram á Suðureyri og tveimur dögum seinna flýg ég til Edinborgar. Þar mun ég koma fram á hverjum degi frá 8. ágúst til 30. ágúst nema ég fæ frí á mánudögum. Ég frumsýndi einleikinn í London í Hen and Chicken-leikhúsinu og síðan hef ég líka sýnt hana í Mengi en þá þurfti ég að halda aukasýningu vegna aðsóknar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.