Erlent

Kenna Bandaríkjunum um viðræðuleysið

Þórgnýr Albert Einarsson skrifar
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, vill ekki missa kjarnorkuvopnabúr sitt.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, vill ekki missa kjarnorkuvopnabúr sitt. nordicphotos/afp
Norður-Kórea „Það að Bandaríkjamenn hampi vilja sínum til samningaviðræðna og sveigjanleika á meðan þeir standa í stórfelldum hernaðaraðgerðum gegn okkur er hámark hræsninnar,“ sagði nafnlaus talsmaður utanríkisráðuneytis Norður-Kóreu í gær.

Norður-Kóreumenn hafa undanfarið sagst engan áhuga hafa á því að semja um svipað samkomulag og stórveldi heimsins, Þýskaland, Bandaríkin, Rússland, Bretland, Kína, Frakkland og Evrópusambandið, gerðu við Írana um kjarnorkumál þar í landi. Þessi ummæli renndu stoðum undir þá stefnu.

Nú kennir utanríkisráðuneytið Bandaríkjunum alfarið um að ekki sé hægt að komast að samkomulagi. „Þetta er ekkert nema ódýr brella til að setja pressuna á okkur og kenna okkur um viðræðuleysið,“ sagði talsmaðurinn enn fremur.

Hann sagði ekki hægt að hefja viðræður fyrr en Bandaríkjamenn hætta árlegum hernaðaræfingum með Suður-Kóreu. Viðræðurnar myndu fara fram milli Norður- og Suður-Kóreu, Japans, Kína, Rússlands og Bandaríkjanna, en ríkin hafa ekki fundað í sex ár.

Norður-Kóreumenn ítrekuðu einnig að þeir hygðust ekki afsala sér kjarnorkuvopnabúri sínu, sem í eru um það bil þrjátíu kjarnorkusprengjur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×