Innlent

Skýrsla um flugslysið í Hlíðarfjalli væntanleg

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Óhug sló á áhorfendur á aksturskeppni í Hlíðarfjalli þegar lágflug yfir brautina endaði með skelfingu.
Óhug sló á áhorfendur á aksturskeppni í Hlíðarfjalli þegar lágflug yfir brautina endaði með skelfingu.
„Rannsóknin er á lokastigi,“ segir Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri flugslysasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa, um gang mála vegna skoðunar á flugslysinu við Akureyri fyrir tæpum tveimur árum.

Flugstjóri og sjúkraflutningamaður fórust er sjúkraflugvél Mýflugs brotlenti á akstursbraut Bílaklúbbs Akureyrar í Hlíðarfjalli mánudaginn 5. ágúst 2013. Annar flugmaður sem var í vélinni komst lífs af.

Þorkell segir styttast í að drög að lokaskýrslu verði send til aðila málsins til umsagnar. Einnig eigi málið eftir að fá umfjöllun hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

„Að því loknu er skýrslan gefin út opinberlega. Og ég býst við að það verði núna á næstu mánuðum. Það snýst um hversu hraða meðhöndlun málið fær á þessum lokaferli,“ segir Þorkell.

Aðspurður segir Þorkell ekkert sérstakt hafa gert rannsókn þessa slyss flókna. „Það er bara nóg að gera hjá okkur og þetta hefur tekið sinn tíma. Hefur haft sinn eðlilega gang.“- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×