Erlent

Þúsundir manna berjast við eld

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Slökkviliðsmaður í Kaliforníu reynir hvað hann getur
Slökkviliðsmaður í Kaliforníu reynir hvað hann getur nordicphotos/AFP
Hátt á fjórða þúsund slökkviliðsmanna berst nú við gróðureldana í Kaliforníu, sem nú þegar hafa eyðilagt meira en 40 heimili og meira en sex þúsund hús eru í hættu.

Reyndir slökkviliðsmenn segja eldana í ár illviðráðanlegri en áður hafi þekkst. Verstur er „Rocky“-eldurinn svonefndi, sem geisað hefur dögum saman norður af San Francisco.

„Um helgina sáum við þennan eld æða yfir 20 þúsund ekrur á fimm klukkustundum,“ er haft eftir Daniel Berlant, upplýsingafulltrúa slökkviliðsins í Kaliforníu, í bandaríska dagblaðinu The Washington Post. Hann segir elstu menn í liði sínu ekki muna eftir því að eldar hafi farið jafn hratt yfir.

Gróðureldar í Kaliforníu hafa orðið illviðráðanlegri með hverju árinu sem líður. Þurrkarnir eru meiri og hitastigið hærra.

Nú þegar hafa nærri 1.500 manns þurft að yfirgefa heimili sín. Um þrettán þúsund að auki hafa verið hvött til að forða sér að heiman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×