Erlent

Fjörutíu féllu í valinn í röð árása skæruliða á Kabúl

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Tugir létust í Kabúl um helgina eftir röð árása skæruliða á höfuðborg Afganistans.
Tugir létust í Kabúl um helgina eftir röð árása skæruliða á höfuðborg Afganistans. nordicphotos/afp
Fjörutíu féllu í fjórum sprengjuárásum í Kabúl um helgina, sem fréttastofa Guardian kallar hina blóðugustu í afgönsku höfuðborginni í áraraðir. Flestir þeirra sem létust voru almennir borgarar og verðandi lögreglumenn. Atlantshafsbandalagið staðfesti einnig að einn úr þess röðum hefði fallið.

Fyrsta árásin, og sú mannskæðasta, var sjálfsmorðsárás. Þá sprengdi talibani, klæddur í einkennisbúning lögreglu, sig í loft upp fyrir utan höfuðstöðvar lögregluskóla þar sem verðandi lögreglumenn biðu í röð eftir að komast inn.

Nokkrum klukkustundum seinna sprungu tvær sprengjur norðan við alþjóðaflugvöll borgarinnar þegar árásarmenn réðust að herstöð Bandaríkjamanna, Camp Integrity. Einn hermaður lést auk átta almennra borgara og tveggja skæruliða samkvæmt tilkynningu Bandaríkjahers. Látni hermaðurinn er sá fimmti úr röðum Bandaríkjamanna sem fellur í Afganistan á árinu. Í kjölfar árásarinnar hringsóluðu herflugvélar Bandaríkjamanna yfir Kabúl.

Bílsprengja sprakk þar að auki á laugardagsmorgun utan við herstöð Afgana í borginni, nærri miðborg Kabúl. Tuttugu féllu við sprenginguna og nokkur hundruð særðust, misalvarlega. Flestir hinna slösuðu leituðu læknisaðstoðar vegna glerbrota sem í þeim höfðu lent. „Öll þau tuttugu sem féllu í valinn voru almennir borgarar,“ segir Kabir Amiri, talsmaður sjúkrahúsa í Kabúl.

Hin föllnu bætast í hóp fimm þúsund almennra borgara sem fallið hafa í átökum í Afganistan á þessu ári. Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því að sex fyrstu mánuðir þessa árs hefðu verið þeir blóðugustu í Afganistan undanfarin ár.

Sameinuðu þjóðirnar segja að breytt aðferðafræði skæruliða liggi að baki meira mannfalli, en nærri tvöfalt fleiri sjálfsmorðsárásir urðu í Kabúl á fyrri helmingi þessa árs en á síðasta hálfa ári á undan.

Talsmaður talibana, Zabiullah Mujahed, lýsti yfir ábyrgð talibana á árásinni á lögreglumennina en tjáði sig ekki um hinar árásirnar þrjár.

Talibanar tilkynntu um skipun nýs leiðtoga þeirra, Akhtars Mansour, eftir að ríkisstjórn Afgana tilkynnti um andlát þess fyrrverandi, Muhammads Omar. Mansour hafði verið aðstoðarmaður Omars undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×