Erlent

Sumir Rússar ekki velkomnir á Svalbarða

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Margir Rússar starfa í námuiðnaðinum á Svalbarða.
Margir Rússar starfa í námuiðnaðinum á Svalbarða. Fréttablaðið/AFP
Yfirvöld í Rússlandi telja Noreg svívirða alþjóðlegan sáttmála um málefni Svalbarða.

Nýleg tilskipun frá norsku ríkisstjórninni bannar tilteknum rússneskum ríkisborgurum að heimsækja Svalbarða. Enn fremur hefur Noregur innleitt nýjar landamærareglur sem heimila þeim að vísa öllum rússneskum ríkisborgurum sem eru á bannlistanum á brott frá Noregi.

Aðgerðin er hluti af þvingunaraðgerðum Evrópusambandsins gegn Rússlandi.

Samkvæmt sáttmálanum hafa Rússar ferðafrelsi á svæðinu líkt og þegnar þeirra ríkja sem eiga aðild að sáttmálanum.

Dímítrí Rogosín, varaforsætisráðherra Rússlands, er einn þeirra sem er ekki heimilt að ferðast til Svalbarða. Hann hefur lýst yfir megnri vanþóknun á aðgerðum Noregs og sagði meðal annars á Twitter-síðu sinni að Norðmenn væru öfundsjúkir þar sem Rússar hefðu stungið sér til sunds við norðurpólinn.

Þá hefur Alexander Bortníkov, formaður öryggismálanefndar Rússlands, boðað aukna veru rússneska flotans við norðurskautið. Hann segir að með auknum viðskiptahagsmunum og umferð á svæðinu beri ríkinu að vernda sína hagsmuni. Hann segir að Rússland hafi svigrúm í alþjóðalögum til að auka umferð herskipa um svæðið. Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefur sett málefni norðurslóða ofarlega í forgang undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×