Erlent

Sverja nýjum leiðtoga talíbana hollustueið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Leiðtogi al-Kaída sór leiðtoga talíbana hollustueið í gær.
Leiðtogi al-Kaída sór leiðtoga talíbana hollustueið í gær. nordicphotos/afp
„Sem leiðtogi al-Kaída sver ég þér [Akhtar Mansour] hollustu líkt og Osama bin Laden og píslarvottarnir bræður okkar sóru Mohammed Omar hollustu á sínum tíma,“ sagði Ayman al-Zawahiri, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Kaída, í yfirlýsingu í gær. Al-Zawahiri sór nýjum leiðtoga talíbana, Akhtar Mansour, þannig hollustueið.

Mansour tók við undir lok síðasta mánaðar eftir að tilkynnt hafði verið um andlát Mohammeds Omar, fyrrverandi leiðtoga talíbana. Omar er talinn hafa látist árið 2013. Skiptar skoðanir eru þó meðal talíbana um eftirmanninn og tók þó nokkurn tíma að taka ákvörðun um að hann skyldi setjast í stól leiðtogans.

Al-Zawahiri sagði enn fremur að furstadæmi talíbana í Afganistan væri fyrsta og eina alvöru furstadæmi múslima frá falli Ottómanaveldisins. Þá sagði leiðtoginn samtök sín standa gegn hverju því ríki múslima sem ekki færi eftir sjaríalögum.

„Ég heiti því að heyja áfram heilagt stríð þar til öll lönd múslima hafa verið frelsuð,“ sagði leiðtoginn, sem nú er talinn vera í felum á landamærum Afganistans og Pakistans.

Talíbanar sendu út yfirlýsingu í gær þar sem þeir sögðust ekki vilja tjá sig um hollustueið al-Zawahiris að svo stöddu. Hins vegar stóð í yfirlýsingunni að talíbanar hygðust gera það á næstu dögum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×