Erlent

Tsipras vill að þingið samþykki stuðningsyfirlýsingu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, var harðlega gagnrýndur á maraþonfundi þingsins.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, var harðlega gagnrýndur á maraþonfundi þingsins. vísir/epa
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, ætlar nú að leggja örlög sín í hendur þingsins. Hann krefst stuðningsyfirlýsingar, þótt engan veginn sé öruggt að hann njóti meirihlutastuðnings lengur.

Þingið samþykkti í fyrrinótt, eftir sólarhringslangan maraþonfund, samning um þriðju fjárhagsaðstoðina frá Evrópusambandinu, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópska seðlabankanum. Alls greiddu 222 þingmenn af 300 atkvæði með samningnum, þannig að hann rann auðveldlega í gegn með stuðningi stjórnarandstöðunnar.

Hins vegar greiddu 43 af alls 147 þingmönnum SYRIZA, flokks Tsipras, atkvæði gegn samningnum. Til þess að Tsipras geti setið áfram sem forsætisráðherra þurfa einhverjir af þessum 43 þingmönnum að greiða atkvæði með stuðningsyfirlýsingu við hann, þótt þeir hafi verið andvígir samningnum.

Fjármálaráðherrann fyrrverandi greiddi atkvæði gegn samningnum en sagðist engu að síður styðja stjórnina.vísir/epa
Janis Varúfakis, fyrrverandi fjármálaráðherra, greiddi atkvæði gegn samningnum en sagðist engu að síður styðja ríkisstjórnina. 

Búist er við því að stuðningsyfirlýsing við stjórnina verði borin undir atkvæði þingmanna einhvern tímann eftir 20. ágúst. Verði stjórnin felld þarf að boða til nýrra kosninga í haust, með áframhaldandi óvissu um framhaldið.

Mikill hiti var í þingmönnum þegar rætt var um samninginn og gengu ásakanir á víxl. Tsipras forsætisráðherra var harðlega gagnrýndur fyrir að hafa lúffað fyrir Evrópusambandinu og komið heim með samning, sem er strangari gagnvart Grikkjum en fyrri samningurinn, sem hann sjálfur hafði þó hvatt Grikki til að hafna í þjóðaratkvæðagreiðslu í vor.

Fjármálaráðherrar evruríkjanna komu síðan saman strax í gær og samþykktu aðstoðina.

Samningurinn við Grikki felur í sér að þeir fá samtals 86 milljarða evra, eða jafnvirði rúmlega 12.000 milljarða króna. Á móti þurfa Grikkir að hagræða enn frekar í ríkisrekstri með því meðal annars að selja ríkiseignir, herða skattheimtu, hætta að greiða bændum eldsneytisstyrki og hækka lífeyrisaldur, svo nokkuð sé nefnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×