Erlent

Trump lofar að fara hvergi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump vill banna öllum múslimum að koma til Bandaríkjanna.
Donald Trump vill banna öllum múslimum að koma til Bandaríkjanna. vísir/EPA
„Ég mun aldrei hætta í þessari kosningabaráttu,“ sagði Donald Trump, sem sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokks Bandaríkjanna til forsetaframboðs, í samtali við Washington Post í gær. 

Mikið hefur verið deilt á Trump síðustu daga í kjölfar ummæla hans um að banna skyldi öllum múslimum að koma til Bandaríkjanna, hvort sem þeir væru hryðjuverkamenn, flóttamenn eða Bandaríkjamenn á leið heim úr fríi erlendis.

Aðrir frambjóðendur repúblikana köllúðu hugmyndina ótæka og sögðu hana þvert á það sem flokkurinn stendur fyrir. Þá sagði talsmaður forsetaembættis Bandaríkjanna hugmynd Trump sjálfkrafa dæma hann úr leik sem trúverðugan kost í forsetaembættið.

Hörð viðbrögð samflokksmanna hans urðu til þess að hann benti á skoðanakönnun USA Today þar sem fram kom að nærri sjötíu prósent fylgismanna hans myndu kjósa Trump jafnvel þótt hann yrði ekki frambjóðandi repúblikana heldur færi fram sem sjálfstæður frambjóðandi utan flokka.

Trump hefur mælst með mest fylgi allra repúblikana allt frá því í júlí og stendur fylgi hans nú í tæpum þrjátíu prósentum. Nærri tvöfalt meira fylgi en næsti maður, Ted Cruz, sem mælist með fimmtán prósenta fylgi.

Eftir að hafa forðast það í lengstu lög undirritaði Trump loforð þess efnis í haust að bjóða sig ekki sjálfstætt fram heldur styðja frambjóðanda repúblikana sama hver hann yrði. Nú segist Trump verða að endurskoða loforðið nema hann fái það sem hann kallar sanngjarna meðferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×