Lífið

Hjartað slær í Básum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Skúli staðnæmist við brún Rauðufossa á göngu sinni frá Landmannahelli í Dalakofa.
Skúli staðnæmist við brún Rauðufossa á göngu sinni frá Landmannahelli í Dalakofa.
Allt er fertugum fært, segir máltækið, og það má með sanni segja um ferðafélagið Útivist. Það efnir til ferða á hverjum sunnudegi árið um kring og margar ferðir taka fleiri daga. Framkvæmdastjórinn Skúli H. Skúlason segir það líka stöndugt og með traustan fjárhag. En skyldi vera mikil endurnýjun í því?

„Já, okkur helst vel á félögum og við erum alltaf að sjá ný andlit. Fólk þarf ekki að vera félagar til að slást í hópinn í ferðir með okkur en það er samt hagstæðara fyrir það,“ svarar hann.

Fyrsta ganga Útivistar var á Keili 6. apríl 1975 og allar götur síðan hefur verið farin afmælisganga á Keili að sögn Skúla sem reyndar sat heima í gær þegar slík ferð var farin, upptekinn við að lýsa starfsemi Útivistar í fjölmiðlum.

Útivist var stofnað út úr Ferðafélagi Íslands. Félagar voru 54 í upphafi en eru í dag um 1.500, að sögn Skúla. Fljótlega eftir stofnun segir hann  áhuga hafa vaknað á að reisa skála á góðum stað og athuganir hafa endað með því að félagið fékk að byggja í Básum.

„Í hugum margra slær hjarta félagsins í Básum,“ segir hann og heldur áfram: „Þegar hafist var handa við skálann árið 1980 átti félagið enga peninga en skuldaði um 800 þúsund. Talið var að skálinn kostaði annað eins. Samt tókst að koma honum upp því félagsmenn styrktu bygginguna með fjárframlögum eða efni, sumir veðsettu húsin sín fyrir lánum og svo var farið allar helgar austur í Bása til að smíða.“

Síðan hefur félaginu vaxið fiskur um hrygg, það hefur byggt annan skála í Básum og smáhýsi við tjaldstæðin auk sex annarra skála, á Fimmvörðuhálsi, við Sveinstind, í Skælingum, við Álftavötn, Strútsskála og Dalakofann.

Aðalstarfsemin er samt ferðalög og einnig lýsir Skúli dagskrá sérstakra hópa.

„Einn hópurinn heitir Fjallarefir, hann er hugsaður fyrir fólk sem er að byrja í útivist, hefur kannski lengi langað en aldrei stigið skrefið. Þar er samþættuð göngudagskrá, fræðsla og þjálfun, farið í gegnum allt sem skiptir máli í útvistinni, klæðnað, næringu og fleira. Það hefur gefist mjög vel og við erum komin með framhaldsprógramm fyrir þá lengra komnu. Annar hópur heitir Everest og hann er fyrir fólk sem er í mjög góðu formi, gengur greitt, tekur á því og klífur tinda. Svona er reynt að höfða til allra.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×