Erlent

Yngstu morðingjar Bandaríkjanna losna brátt úr fangelsi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Systkinin Catherine og Curtis.
Systkinin Catherine og Curtis. mynd/florida today
Curtis Fairchild Jones var aðeins 12 ára gamall þegar hann og systir hans Catherine, sem er árinu eldri, myrtu kærustu föður þeirra, Sonyu Nicole Speights, í janúar 1999. Þau voru bæði dæmd í fangelsi fyrir morðið en Curtis spurði verjanda sinn eftir að dómur féll hvort hann mætti taka Nintendo-leikjatölvuna sína með sér í fangelsið.

Í fyrstu var talið að börnin hefðu myrt kærustuna vegna afbrýðisemi en fljótlega kom í ljós að þau ætluðu einnig að drepa föður sinn og frænda sem bjó með fjölskyldunni. Frændinn beitti börnin kynferðislegu ofbeldi.

„Ég ætla að drepa alla“

Barnaverndaryfirvöld vissu af ofbeldinu en gerðu lítið í málinu. Börnunum leið eins og ekki væri hlustað á hróp þeirra á hjálp. Sama kvöld og systkinin myrtu Speights hafði Catherine verið í sturtu þegar frændinn kom inn á bað og fróaði sér á meðan hún baðaði sig grátandi.

Síðar um kvöldið skrifaði Catherine í dagbók sína: „Ég ætla að drepa alla.“

Hún sagði Curtis bróður sínum frá fyrirætlunum sínum og sagðist hann ætla að hjálpa henni. Hann vissi hvar faðir þeirra geymdi skammbyssuna sína sem þau sóttu og skutu kærustuna.

Eru á ævilöngu skilorði

Í kjölfarið urðu systkinin mjög óttaslegin og áætlun þeirra um að skjóta einnig pabba sinn og frænda rann út í sandinn. Þau hlupu út í skóg skammt frá heimili þeirra og földu sig þar uns lögreglan fann þau morguninn eftir.

Systkinin eru yngstu Bandaríkjamennirnir sem ákærðir hafa verið fyrir morð að yfirlögðu ráði (e. first degree murder). Hefðu þau verið fundin sek um það hefðu þau farið í lífstíðarfangelsi svo systkinin játuðu á sig morð, ekki að yfirlögðu ráði (e. second degree murder). Þau voru því dæmd í 18 ára fangelsi og nú þegar þau losna verða þau á skilorði ævilangt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×