Erlent

Setti tveggja ára dreng með Downs í þvottavél

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Á myndinni sést hvernig einhver heldur aftur hurð þvottavélarinnar meðan drengurinn er í vélinni.
Á myndinni sést hvernig einhver heldur aftur hurð þvottavélarinnar meðan drengurinn er í vélinni. mynd/facebook
Lögreglunni í Skotlandi var tilkynnt um móður sem hafði sett dreng í þvottavél „í gríni“ en hann er tveggja ára og með Downs-heilkenni.

Hin 21 árs gamla Courtney Stewart setti mynd á Facebook þar sem sjá má hönd einhvers fullorðins halda hurð þvottavélarinnar lokaðri og drenginn inni í vélinni.

Við myndina skrifaði Stewart að strákurinn, sem var í umsjá hennar þegar myndin var tekin, „elskaði þvottavélar“ og að „þau hafi tekið myndina og skemmt sér vel.“

Það voru nágrannar stúlkunnar í bænum Erskine sem tilkynntu um málið til lögreglu enda stóð þeim ekki á sama um velferð drengsins. „Það var hræðilegt að horfa upp á þetta,“ er haft eftir einum nágrannanna í the Daily Record.

Facebook-færsla frá Stewart í kjölfar myndbirtingarinnar.mynd/facebook
„Það að einhver, sem er foreldri í þokkabót, setji svona mynd á Facebook í gríni er ótrúlegt. Það er ekki nema von að fólk sé reitt yfir þessu. Fólk í bænum hefur rætt þetta sín á milli því hver sá sem hefur séð myndina hefur fengið áfall,“ sagði nágranninn ennfremur. 

Að sögn Stewart fór drengurinn sjálfur inn í þvottavélina og sagði það „algjörlega fáránlegt“ að einhverjir tilkynntu hana til lögreglu. „Hann er greinilega að hlæja á myndunum. Hvað hélt fólk að ég væri að gera? Sippa honum í snúning?,“ sagði Stewart.

„Hann er með smá áráttu fyrir þvottavélum. Allir sem þekkja drenginn vita að hann er með áráttu fyrir þvottavélum.“

Tveir lögreglumenn komu á heimili hennar og var henni sleppt að loknum yfirheyrslum. Hún hefur ekki verið kærð fyrir athæfið en síðan þá hefur verið ráðist á Courtney Stewart á götum úti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×