Erlent

Norður-Kóreumenn vilja ekki gera kjarnorkusamning

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ríkisstjórn Kim Jong-Un hyggst ekki afsala sér kjarnorkuvopnum sínum.
Ríkisstjórn Kim Jong-Un hyggst ekki afsala sér kjarnorkuvopnum sínum. nordicphotos/afp
„Við erum augljóslega kjarnorkuveldi og kjarnorkuveldi gæta eigin hagsmuna,“ segir í yfirlýsingu sem norðurkóreska utanríkisráðuneytið sendi frá sér í gær. Samkvæmt tölum Alþjóðaöryggis- og vísindastofnunarinnar búa Norður-Kóreumenn trúlega yfir um 30 kjarnaoddum.

Ráðamenn í landinu hafa ekki áhuga á samningi svipuðum þeim sem stórveldi heimsins, Bandaríkin, Rússland, Bretland, Kína, Frakkland, Þýskaland og Evrópusambandið, gerðu við Írana í síðustu viku. Í þeim samningi segir að Íranar megi ekki þróa kjarnorkuvopn en á móti verði viðskiptabanni Bandaríkjanna, Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins á landið aflétt.

„Það er órökrétt að bera stöðu okkar saman við stöðu Írana þar sem við erum ávallt fórnarlömb ögrandi hernaðaraðgerða Bandaríkjamanna, til að mynda risavaxinna hernaðaræfinga og kjarnorkuógnarinnar,“ segir í yfirlýsingunni.

„Við höfum engan áhuga á viðræðum sem hefðu það markmið að afsala okkur kjarnorkusprengjum okkar,“ segir enn fremur.

Líkt og á Írana hafa Bandaríkin, Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið sett strangt viðskiptabann á alla verslun við Norður-Kóreu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×