Erlent

Hárgreiðslukonan á heimleið eftir sautján ára fjarveru

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Verkið La Coiffeuse eftir Pablo Picasso. Nafnið þýðir Hárgreiðslukonan á íslensku.
Verkið La Coiffeuse eftir Pablo Picasso. Nafnið þýðir Hárgreiðslukonan á íslensku. vísir/afp
Málverkinu „La Coiffeuse“ eftir Pablo Picasso verður skilað til Frakklands á næstu dögum, þaðan sem því var stolið fyrir um sautján árum síðan. Starfsmenn póstþjónustunnar FedEx fundu verkið um síðustu jól, þegar það var sent frá Belgíu til Bandaríkjanna.

Því hafði verið pakkað inn í pappír og með fylgiseðlinum kom fram að í pakkanum væri föndur og handverk, metið á 37 dollara, að jafnvirði fimm þúsund íslenskra króna. Við frekari eftirgrennslan kom í ljós að um málverk eftir Picasso væri að ræða, en það er metið á tæpa tvo milljarða íslenskra króna.

Verkið er í eigu franska ríkisins og verður það því afhent franska sendiherranum á næstunni.

Stutt er síðan tollverðir á eyjunni Korsikíu lögðu hald á annað Picasso-verk, sem flytja átti til Sviss. Það er metið á 25 milljónir evra og álitið sem þjóðargersemi af spænskum yfirvöldum. 


Tengdar fréttir

Lögðu hald á Picasso-verk

Tollayfirvöld á frönsku eyjunni Korsikíu lögðu í nótt hald á Picasso málverk sem flytja átti til Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×