Erlent

Jimmy Carter með krabbamein

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Jimmy Carter
Jimmy Carter vísir/getty
Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, er með krabbamein. Í yfirlýsingu frá fjölskyldu hans segir að meinið hafi komið í ljós í kjölfar aðgerðar á lifur og að það hafi dreift sér.

Í yfirlýsingunni kemur ekki fram hvar meinið átti upptök sín, hvert það hefur dreift sér eða hve langt á veg komið það er. Forsetinn fyrrverandi hefur gefið út að hann muni hliðra dagskrá sinni og ferðum sínum til að geta tekist á við sjúkdóminn af krafti.

Fyrr í mánuðinum fór Carter, sem er níræður, í aðgerð á lifur þar sem lítil fyrirferð var fjarlægð og talið var að hann myndi ná sér að fullu af því sem hrjáði hann. Frekari rannsóknir leiddu í ljós að mein hafði dreift sér um líkama hans.

Margir úr fjölskyldu Carter hafa látist úr krabbameini en þar má nefna föður hans, bróðir og tvær systur. Öll fengu þau krabbamein í brisið. Móðir hans fékk æxli í brjóst sín sem síðar dreifðist meðal annars til brissins.

Jimmy Carter var þrítugastiogníundi forseti Bandaríkjanna og sat í Hvíta húsinu frá 1977 til 1981. Árið 2002 voru honum veitt friðarverðlaun Nóbels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×