Fótbolti

Draumaleikir Guðbjargar líklega úr sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Guðbjörg Gunnarsdóttir. Vísir/Getty
Meiðsli Guðbjargar Gunnarsdóttur í landsleiknum á móti Slóveníu ætla að verða henni dýrkeypt og draumaendir hennar á tímabilinu er mögulega að breytast í martröð.

Guðbjörg fékk slæmt högg á rifbeinin í sigurleik íslenska landsliðsins út í Slóveníu og þurfti að yfirgefa völlinn.

Guðbjörg og félagar í Lilleström eru þegar búnar að tryggja sér norska meistaratitilinn og því skiptir ekki miklu þótt að hún missi af síðustu tveimur deildarleikjum liðsins.  Það eru hinsvegar þrír aðrir stórleikir sem Guðbjörg var búin að horfa til og tveir af þeim eru nú í mikilli hættu.

„Þetta er alveg glatað. Rifbeinið er að öllum líkindum brákað," sagði Guðbjörg í samtali við Sindra Sverrisson á Morgunblaðinu.

Það kom ekkert brot í ljós í myndatöku á sjúkrahúsi út í Slóveníu. Hún hefur aftur á móti ekkert getað æft síðan að hún kom heim þar sem sjúkraþjálfarar Lilleström-liðsins segja rifbeinið vera brákað.

Lilleström spilar við Frankfurt 11. og 18. nóvember í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en bikarúrslitaleikurinn við Avaldsnes er síðan 21. nóvember.

„Það þarf allt að ganga upp til að ég nái leikjunum í Meistaradeildinni," sagði Guðbjörg sem var búinn að horfa til leikjanna á móti Evrópumeisturum Frankfurt. "Fyrir mig sem markmann eru þetta algjörir draumaleikir, að mæta besta liði Evrópu. Ég held ennþá í vonina," sagði Guðbjörg í fyrrnefndu viðtali.

Besta ráðið sem sjúkraþjálfarar Lilleström hafa gefið henni er að hvíla sem mest og þá grói þetta hraðar.

Guðbjörg er ekki eini íslenski leikmaðurinn sem er í kapphlaupi við tímann upp á að ná bikarúrslitaleiknum því Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður Avaldsnes, fór snemma af velli á móti Slóveníu eftir að hnémeiðsli tóku sig upp.

Hólmfríður og Guðbjörg fá vonandi tækifæri til að mætast í bikarúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×