Erlent

Norður-Kórea varar við stríði

Samúel Karl Ólason skrifar
Haldinn var neyðarfundur í Norður-Kóreu í gær.
Haldinn var neyðarfundur í Norður-Kóreu í gær. Vísir/AFP
Yfirvöld í Norður-Kóreu vara nú við stríði við granna sína í suðri. Leiðtogi landsins hefur sett herinn í viðbragðsstöðu og skipað þeim að undirbúa sig fyrir átök, degi eftir að stórskotalið landanna tveggja skutu yfir landamærin.

Fyrst skutu Norður-Kóreumenn yfir landamærin á hátalara sem spiluðu áróður gegn ríkisstjórninni í Pyoungyang. Suður-Kóreumenn skutu tugum skota til baka. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi fallið í skothríðinni. Norður-Kóreumenn þvertaka þó fyrir að hafa skotið yfir landamærin.

Yfirvöld í Pyoungyang sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þeir krefjast þess að slökkt verði á hátölurunum í Suður-Kóreu. Verði það ekki gert hóta þeir hernaði og að sökkva Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, í eldhafi. Yfirvöld Suður-Kóreu hóta á móti að bregðast við öllum árásum úr norðri.

Á vef AP fréttaveitunnar segir frá því að hætt hafi verið við árlega heræfingu Bandaríkjanna og Suður-Kóreu vegna deilunnar. Norður-Kórea hefur gagnrýnt æfinguna, eins og gert er á hverju ári, og segja hana undirbúning fyrir innrás.

Norður-Kórea fer fram á að slökkt verði á hátölurunum fyrir klukkan átta í fyrramálið að íslenskum tíma. Suður-Kórea segir hins vegar að það verði ekki gert. Útsendingarnar hófust eftir að Norður-Kóreumenn voru sakaðir um að koma fyrir jarðsprengjum sunnanmegin við landamærin sem særðu tvo Suður-kóreska hermenn.

Hætt er við að deilurnar muni stigmagnast. Sérstaklega vegna þess, að árið 2010 létust um 50 borgarar í tveimur árásum stórskotaliðs á bæ í Suður-Kóreu. Eftir það sögðu yfirvöld í Seoul að hefnt yrði fyrir allar slíkar árásir með þreföldum krafti.


Tengdar fréttir

Stórskotahríð í Kóreu

Herinn í Norður-Kóreu virðist hafa skotið eldflaug á hátalara sunnan megin við landamærin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×