Erlent

Gerðu húsleit á heimili Gene Simmons: „Ekki gleyma að breyta lykilorðunum ykkar“

Birgir Olgeirsson skrifar
Gene Simmons.
Gene Simmons. Vísir/Getty
Lögregluteymi í  Bandaríkjunum, sem rannsakar vefglæpi gegn börnum, gerði húsleit á heimili tónlistarmannsins Gene Simmons í borginni Los Angeles í gær. Lögreglan áréttar við fjölmiðla vestanhafs að hvorki Simmons né fjölskylda hans séu grunuð um afbrot.

John Jenal, aðstoðarlögreglustjóri í Los Angeles, sagði við Associated Press-fréttaveituna að Simmons hefði verið afar samvinnufús á meðan húsleitinni stóð. Lögreglan vildi engar frekari upplýsingar veita um málið.

Talsmaður Simmons sagði við fjölmiðla að rannsókn lögreglu beindist að meintum glæp sem átti að hafa átt sér stað að heimili Simmons í fyrra á meðan hann var á tónleikaferðalagi með hljómsveit sinni Kiss.

Eiginkona Simmons ritaði nokkur orð um málið á Twitter þar sem hún þakkaði aðdáendum fyrir stuðninginn. „Okkur hryllir við þeirri tilhugsun að einhver hafi notað heimili okkar til að fremja jafn skelfilegan glæp. Góða nótt og ekki gleyma að breyta lykilorðunum ykkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×