Menning

RaTaTam túlka sögur frá þolendum heimilisofbeldis

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Hér má sjá leikhópinn RaTaTam ásamt hjálparhellum tónleikanna, Pálma Sigurhjartarsyni, Þórdísi Claessen og Ólafíu Hrönn, en þau koma fram á tónleikunum.
Hér má sjá leikhópinn RaTaTam ásamt hjálparhellum tónleikanna, Pálma Sigurhjartarsyni, Þórdísi Claessen og Ólafíu Hrönn, en þau koma fram á tónleikunum. Vísir/Stefán
Leikhópurinn RaTaTam hefur frá því um áramót tekið viðtöl við þolendur og gerendur heimilisofbeldis sem mun á leikárinu verða sett upp í leiksýningu. Leikhópurinn efndi til söfnunar á Karolina Fund en söfnunin fór fram úr björtustu vonum og safnaðist um 1.000 evrum meira en óskað var eftir.

Þau fengu einnig styrk frá Menningarráði Suðurlands til þess að sýna verk í vinnslu á Suðurlandi. Á Karolina Fund lofaði hópurinn að halda tónleika fyrir alla sem studdu leiksýninguna. Einnig gátu stuðningsaðilar keypt sérstök íslensk óskalög og á mánudaginn næsta, 7. september, spila þau óskalögin á heimilislegum tónleikum á Rósenberg. Þau fengu til liðs við sig tónlistarfólkið Pálma Sigurhjartarson, Þórdísi Claessen og leikkonuna Ólafíu Hrönn.

Eftir að þau sendu út sína fyrstu tilkynningu í byrjun árs þar sem þau óskuðu eftir reynslusögum af heimilis­ofbeldi hafa viðbrögðin ekki látið á sér standa. „Sögurnar hafa hrúgast inn og fólk er mjög viljugt að segja frá. Við stefnum að því að hitta alla og erum enn að hvetja fólk til þess að hafa samband við okkur,“ segir Halldóra Rut Baldurssdóttir en leikhópurinn hefur verið að leita eftir reynslusögum frá öllum, konum, körlum og gerendum.

Hildur Magnúsdóttir, leikkona í RaTaTam, lærði leiklist í Central School­ of Speach and Drama þar sem hún tileinkaði sér aðferð sem kallast verbatim. „Verbatim er aðferð sem leikarinn nýtir til að segja reynslusögur á sem nákvæmastan hátt, í raun nákvæmlega eins og frásögn viðmælandans er. Þessi aðferð verður notuð í bland við „devised“ aðferð og heimildaleikhús. Hópurinn tekur síðan allt efnið saman og hnoðar í sýningu,“ segir Halldóra en hún bætir við að sýningin sé aðeins lítið skref í þessari stóru baráttu en sögurnar gætu vonandi orðið einhverjum heimilum víti til varnaðar, í það minnsta vakið þarfa umræðu.

Halldóra segir að eftir að hafa heyrt svo margar sögur frá öllum landshornum þá sé auðvelt að sjá munstur og margar af sögunum eru alveg eins, sama sagan aftur og aftur. „Fólki finnst gott að geta tjáð sig um söguna með þá von að hún gæti hjálpað öðrum í sömu aðstæðum.“

Tónleikarnir eru sérstakir þakkartónleikar fyrir þá sem styrktu leikhópinn á Karolina Fund. „Lögin sem verða sungin og spiluð eru keypt óskalög stuðningsaðila og því verður farið um víðan völl í íslenskri tónlist en það er einmitt þema tónleikanna. Það eru allir velkomnir á tónleikana en aðgangseyrir er 1.500 krónur.“

Það hefur farið mikið fyrir umræðunni um heimilisofbeldi undan­farið og í ljós hefur komið að heimilisofbeldi er mun algengara en fólk áttar sig á. „Við vorum nokkrar konur saman komnar í spjalli fyrir nokkrum árum, þegar ein þeirra opnaði sig um sína reynslu. Það kom okkur síðan á óvart að hinar höfðu líka reynslu og sögðu sína sögu hver á fætur annarri.

Ég hef átt fleiri vini sem hafa orðið fyrir ofbeldi en hafa leynt því vegna skammar. Af hverju þarf að vera svona mikil skömm yfir þessu? Þetta hristi upp í mér til þess að gera leiksýningu þar sem fólk hefði tækifæri til þess að segja sína sögu fyrr en seinna. Aðrir í hópnum höfðu einnig verið að hugsa svipað og úr því skapaðist leikhópurinn RaTaTam.“

Sýningin verður sýnd næsta vor en þau ætla að halda áfram að safna reynslusögum út árið og hvetja fólk til að halda áfram að hafa samband á okkarsogur@gmail.com.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.