Lífið

Jörundur gerir það gott með Hjónabandssælu

Guðrún Ansnes skrifar
Stuttmyndin var sýnd hér á landi á RIFF, Stockfish-hátíðinni og á Patreksfirði, þar sem hún er tekin upp.
Stuttmyndin var sýnd hér á landi á RIFF, Stockfish-hátíðinni og á Patreksfirði, þar sem hún er tekin upp.
Stuttmynd Jörundar Ragnarssonar, Hjónabandssæla, hlaut verðlaun fyrir besta handritið á hinni virtu Tel Aviv International Student Film Festival á sunnudag.

Skammt er stórra högga á milli, því í byrjun mánaðarins var myndin valin sú besta í flokki erlendra stuttmynda á New York International Film Festival, og hafði áður hlotið verðlaun á kvikmyndahátíðum í Prag og Montreal.

„Ég átti ekki von á neinu þegar ég var að gera þessa mynd, og hún var allt eins líkleg til að enda ofan í skúffu hjá mér,“ segir Jörundur en myndin er skólaverkefni hans við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum.

Myndin hefur sumsé sannarlega fallið vel í kramið og er Jörundur nú önnum kafinn við að fylgja myndinni vítt og breitt um heiminn. „Myndin var valin til að vera með í prógramminu Les Nuits en Or, á vegum Frönsku kvikmyndaakademíunnar, og er þýdd yfir á sex tungumál. Ég er á túr núna ásamt þrjátíu og tveimur öðrum akademíuverðlaunaleikstjórum, svo sem BAFTA- og Óskars-verðlaunahöfum, þar sem við sýnum myndirnar,“ útskýrir Jörundur og viðurkennir að nú hlaðist verulega inn í reynslubankann.



Mun Jörundur útskrifast um áramótin og segir stefnuna tekna beinustu leið heim á Klakann með fjölskylduna. „New York er ekki sérlega aumingjagóð, mikið hark hérna. Auk þess sakna ég plássins heima á Íslandi,“ segir hann að lokum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×