Lífið

Geri ráð fyrir tvöfalt stærri tónleikum

María Ólafsdóttir er á meðal þeirra sem fram koma á tónleikunum.
María Ólafsdóttir er á meðal þeirra sem fram koma á tónleikunum.
„Við sjáum fram á að viðburðurinn verði tvöfalt ef ekki þrefalt stærri í kvöld heldur en í fyrra,“ segir Bjarni Hallgrímur Bjarnason, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar Sumargleðinnar. Um er að ræða hátíð fyrir öll ungmenni í 8.–10. bekk í grunnskóla sem fram fer í Kaplakrika í kvöld. Bjarni og Grímur Óli Geirsson reka viðburðafyrirtækið Basic House Effect, sem stendur á bak við hátíðina.

Um 1.200 unglingar mættu á tónleikana í fyrra. „Þetta verða allavega yfir tvö þúsund unglingar í ár. Við leggjum mikið upp úr umgjörðinni og viljum leyfa unglingunum að upplifa alvöru stórtónleika.“

Þar koma fram margir af vinsælustu tónlistarmönnum þjóðarinnar eins og Friðrik Dór, AmabAdamA, Jón Jónsson, María Ólafsdóttir og margir fleiri.

Skipuleggjendur hátíðarinnar leggja mikið upp úr öryggi unglinganna á hátíðinni. „Við leggjum mikið upp úr öryggi unglinganna, það er númer eitt, tvö og þrjú. Við erum auðvitað að vinna þetta í samstarfi við félagsmiðstöðvarnar í Hafnarfirði og fleiri aðila.“ Sumargleðin er styrktarsöfnun þar sem ágóðinn rennur óskertur til Barnaspítala Hringsins. 

Miðasala fer fram við dyr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×