Erlent

Fjöldi kynferðisbrota í breskum lestum eykst

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þróunin veldur áhyggjum að sögn lögregluyfirvalda.
Þróunin veldur áhyggjum að sögn lögregluyfirvalda. Vísir/Getty
Fjöldi kynferðisbrota sem eiga sér stað innan breska lestarkerfisins hefur aukist um fjórðung á milli ára samkvæmt tölum frá Bresku umferðarlögreglunni. Öðrum ofbeldisglæpum fjölgaði einnig.

Umferðarlögreglan segir að það sem af er ári hafi fjöldi kynferðisbrota verið 1399, sem er aukning um 282 brot á milli ára en á síðasta ári var tilkynnt um 1117 brot. Brotum þar sem ofbeldi, vopn og kynþáttafordómar komu við sögu fjölgaði einnig úr 8.425 í 9.149.

Aðstöðarlögreglustjóri umferðarlögreglunnar sagði að þetta ylli áhyggjum en unnið væri hörðum höndum að því að koma í veg fyrir ofbeldisglæpi.

„Þegar haft er í huga að 4,5 milljón farþega fara um breska lestarkerfið á hverjum einasta degi eru líkurnar á því að verða fyrir ofbeldi litlar. Við höfum fjölgað lögreglumönnum á kvöldvöktum og á háannatíma auk þess sem víðtækt net öryggismyndavéla aðstoðar okkur í því að snúa þessari þróun við.“

Heildarfjöldi brota innan breska lestarkerfisins fækkaði úr 50.839 í 46.688 á sama tímabili. Að sögn Aðstoðarlögreglustjórans er mikill meirihluta brota sem framinn er innan lestarkerfisins minniháttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×