Lífið

Stóðu uppi með tvö stór einbýlishús og allt fór úr böndunum

Magnús Guðmundsson skrifar
Kalli hefur verið í tónlistinni nánast alla sína tíð en vinnur nú að sinni fyrstu sólóplötu.
Kalli hefur verið í tónlistinni nánast alla sína tíð en vinnur nú að sinni fyrstu sólóplötu. Visir/Pjetur
Hann kemur brosandi út á móti mér úr gömlu og fallega uppgerðu húsi í Álafosskvosinni. Það er bjart og fallegt yfir honum, handabandið þétt og innilegt og hann býður mér til stofu á meðan hann er að klára að hella upp á. Allt ilmar af kaffi og köldu vori. Karl Tómasson, eða Kalli Tomm í Gildrunni eins og margir þekkja hann, hefur tekist á við sitthverja raunina á síðustu árum en Líney Ólafsdóttir, eiginkona hans, og börnin þeirra, þau Ólafur 25 ára og Birna fimmtán ára, hafa staðið þétt saman.

Forseti bæjarstjórnar

Árið 2006 lét Kalli til leiðast að fara í sveitarstjórnarmál. Fæddur og uppalinn Mosi, eins og hann segir sjálfur, var fenginn til þess að leiða lista VG í Mosfellsbæ. „Ég lét til leiðast reynslulaus og sé ekkert eftir því. Þetta voru átta lærdómsrík ár. Við unnum glæstan kosningasigur og komumst í oddastöðu. Reyndum fyrst að mynda meirihluta með Samfylkingunni og Framsókn en það gekk ekki upp. Það fór að endingu svo að við mynduðum meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.

Það þekkja allir alla í svona bæjarfélagi og við erum öll meira og minna vinir. Þetta var í fyrsta sinn sem VG var í meirihluta á landinu í sveitarstjórn undir eigin nafni. En það varð allt vitlaust. Við þóttum hafa svikið vinstrið og þetta varð á tíðum ansi óvægið. En svo fóru menn að sjá að þetta samstarf gekk eins og í sögu og okkur gekk vel að koma okkar að og í framkvæmd.“

Kalli og Líney heima í draumahúsinu í Álafosskvosinni. Visir/Pjetur
Misstum ekki vonina

Það gekk allt glimrandi vel hjá Kalla og fjölskyldunni í Kvosinni á þessum tíma en svo kom hrunið og það fór allt til fjandans. „Við gerðum upp stórt gamalt hús hér í Álafosskvosinni en gerðum þau hrapallegu mistök að kaupa okkur stórt einbýlishús – allir sögðu að gamla húsið myndi seljast einn tveir og þrír en hrunið stoppaði allt og við stóðum uppi með tvö stór einbýlishús og allt fór úr böndunum. 

Við réðum ekkert við þetta og misstum hreinlega allt okkar.

En við erum komin aftur hérna í Álafosskvosina í okkar gamla hús og höldum í vonina um að geta eignast það aftur einn góðan veðurdag. Það er mikill og stór draumur fjölskyldunnar því að hér líður okkur afskaplega vel.

Enginn feluleikur

Ég sagði af mér sem forseti bæjarstjórnar. Ég fann að fólk kunni að meta að ég fór þá leið að leyna engu um ástandið. Það eru lög í landinu sem segja til um það að maður í gjaldþrotaferli geti ekki gegnt svona ábyrgðarstöðu svo ég vék og fékk mikinn stuðning í bæjarstjórninni og frá fólki um land allt. Með því að koma hreint fram þá varð þetta aldrei að neinu skítamáli eins og sumir fjölmiðlar virtust vilja. 

Menn reyndu að búa eitthvað til en þar sem allir vissu allt um málið þá gátu allir svarað hreint og beint. Enginn feluleikur og ég gat aftur tekið sáttur við mínu embætti eftir að skiptin á búinu höfðu farið fram.

Við fjölskyldan vorum hátt í þrjú ár að gera þetta hús upp og sú vinna er öll farin. Andlega séð er þetta meira en að segja það. Auðvitað svaf maður ekki margar næturnar þegar þetta byrjaði og fyrstu fjölmiðlarnir fóru að hringja. En við Lína og fjölskyldan héldum þétt saman í gegnum þetta og það breytti öllu.

Kalla Tomm lifir og hrærist í að vinna að nýju plötunni þessa dagana.Visir/Pjetur
Endalok og upphaf

Um þetta leyti var mikill gangur á Gildrunni og við héldum m.a frábæra tónleika í Hlégarði. Þetta voru ógleymanlegir tónleikar sem við hljóðrituðum og gáfum út. Við gömlu mennirnir náðum svakalegu flugi og fengum alveg gríðarlegan meðbyr. En svo kemur upp ágreiningur. Fókusinn var ekki allur hjá Gildrunni, menn voru soldið víðar með fókusinn og ekki allir sammála um það að hafa hlutina þannig. 

Því miður, eftir öll þessi frábæru ár, varð það til þess að leiðir skildi. Ég var sár og það urðu aðrir sárir út í mig. Við erum ekki í neinu sambandi enn í dag.

En þegar einar dyr lokast þá opnast aðra. Hún Lína mín sem þekkti manna best hvað hljómsveitin var mér mikils virði hvatti mig aftur af stað í að gera mína eigin plötu og ég er að vinna að henni á fullu í dag ásamt fjölda af góðu fólki. Allur minn hugur og fókus hefur verið í þessu verkefni og þetta allt má ég fyrst og fremst þakka Línu. Undanfarið ár er hreinlega búið að vera eitt skemmtilegasta ár lífs míns.

Tónlistin

Ég er búinn að vera að vinna með alveg frábærum tónlistarmönnum. Lögin mín – sem ég hef gefið út af væntanlegri plötu – hafa fallið í mjög góðan jarðveg og þetta gengur glimrandi vel.

Ég hef verið mikið að vinna með Jóhanni Helgasyni sem er stór gestur á þessari plötu og eins hefur Guðmundur Jónsson í Sálinni hjálpað mér mikið. Svo eru þessir fínu hljóðfæraleikarar eins og Þórður Högnason kontrabassaleikari, Ásgrímur Angantýsson á hljómborð og Tryggvi Hübner gítarleikari sem hefur verið mér mikil stoð og stytta eins og Þórhallur Árnason, bassaleikari Gildrunnar og æskuvinur minn. Ég vil líka nefna hjónakornin Myrru Rós og Júlla frænda sem koma einnig við sögu og eflaust eiga fleiri eftir að bætast í hópinn.

Örlagagaldur

Fyrir fimmtán árum þá lét ég mér detta í hug að tala við Vigdísi Grímsdóttur og fá hana til þess að semja einn texta fyrir Gildruna sem hún gerði en ég hef alltaf verið mikill aðdáandi hennar.

Nú fimmtán árum síðar hef ég aftur samband og biðla til hennar um að semja fyrir mig texta. Hún tók mér aftur svo vel og er búin að senda mér alveg ljómandi fallega texta. Hún og Bjarki Bjarnason, rithöfundur og vinur minn, skipta með sér textum plötunnar.

Það er svo gaman að vinna með svona djúpt þenkjandi listamönnum. Í hvert sinn sem maður fær frá þeim texta þá sökkvir maður sér oní þá og mér hefur alltaf fundist alveg gríðarlegt atriði að hafa góða texta við lög. Þannig er það til að mynda með titiltexta plötunnar, Örlagagaldur eftir Vigdísi, og það er texti sem er mér ákaflega mikils virði.

Það er bjart fram undan eftir allt sem á undan er gengið og notalegt að finna að það birtir til. Ef maður sækir í birtuna og er með hugann við það eitt þá nær maður þangað – þá nær maður birtunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×