Erlent

Bretar og Frakkar semja um flóttamannavandann í Calais

Atli Ísleifsson skrifar
Bresk og frönsk stjórnvöld hyggjast efla aðstoð sína við flóttamennina sem hafast við í búðum í Calais.
Bresk og frönsk stjórnvöld hyggjast efla aðstoð sína við flóttamennina sem hafast við í búðum í Calais. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Bretlandi og Frakklandi hafa náð samkomulagi um hvernig bregðast skuli við ástandinu í frönsku borginni Calais þar sem þúsundir flóttamanna hafast við í von um að smygla sér yfir til Bretlands um Ermarsundsgöngin.

Fjölmargir flóttamannanna hafa reynt að komast um borð í lestir og vörubíla sem á að keyra inn Ermarsundsgöngin og til Bretlands. Nokkrir hafa látið lífið í tilraunum sínum að komast yfir.

Theresa May og Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherrar landanna, munu undirrita samninginn á fimmtudag. Hann gengur að mestu út á að bæta öryggi og ná fullri stjórn á svæðinu þar sem vörubílum er lagt áður en þeim er ekið til Bretlands.

Í frétt BBC segir að samkomulagið felist einnig í því að skerpa á baráttunni gegn smyglurum, en jafnframt skulu löndin efla aðstoð sína við flóttamennina.

Ástandið í Calais hefur mikið verið rætt í Bretlandi og Frakklandi undanfarna mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×