Erlent

Illa gengur að mynda ríkisstjórn í Tyrklandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Dayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/Getty
Illa gengur að mynda ríkisstjórn í kjölfar kosninga í Tyrklandi en búist er við að Ahmed Davutoglu, leiðtogi stærsta flokksins á tyrkneska þinginu muni skila stjórnarmyndunarumboði sínu aftur til forseta Tyrklands, Tayyip Erdogan. Skipa þarf þjóðstjórn allra flokka verði ný ríkisstjórn ekki mynduð fyrir 23. ágúst.

Ríkisstjórn Davutoglu tapaði þingmeirihluta sínum í kosningunum í júní sem gerði það að verkum að flokkur hans gat ekki setið einn að stjórnartaumunum lengur líkt og hann hefur gert frá árinu 2002.



Í gærkvöldi var bundið enda á viðræður á milli Réttlæti- og þróunarflokks Davutoglu og Þjóðernisflokks Devlet Bacheli. Í síðustu viku ræddi Davutoglu við stærsta flokk stjórnarandstöðunnar, Lýðveldisflokkinn um að mynda samsteypustjórn en viðræður sigldu í strand.



Erdogan sakaður um að tefja stjórnarmyndunarviðræður

Samkvæmt stjórnarskrá Tyrklands þarf Erdogan forseti að skipa nýja ríkisstjórn þar sem allir flokkar skipta jafnt með sér verkum náist ekki að mynda stjórn fyrir 23. ágúst. Slík stjórn myndi sitja þangað til boðað yrði til nýrra kosninga.

Vinstri flokkurinn, Lýðræðisflokkur fólksins, sem náði inn á þing í kosningunum í júní í fyrsta sinn hefur lýst yfir vilja til þess að taka þátt í slíkri þjóðstjórn en eitt af helstu stefnumálum flokksins er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að gera breytingar á stjórnarskránni til þess að minnka völd forsetans.

Erdogan forseti hefur verið sakaður um að vera að tefja í stjórnarmyndunarviðræðum svo að halda megi nýjar kosningar. Er hann sakaður um að ætla að freista þess að Lýðræðisflokkur fólksins detti út af þingi í nýjum kosningum. Stuðningur flokksins við Verkamannaflokk Kúrda er þyrnir í augum Erdogan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×