Mikil rigning tók á móti íslensku landsliðsstrákunum þegar þeir mættu á sína fyrstu æfingu í Amsterdam í dag en framundan er leikur á móti Hollandi í undankeppni EM á fimmtudagskvöldið.
Birkir Már Sævarsson flaug til Amsterdam frá Stokkhólmi í Svíþjóð þar sem hann er á sínu fyrsta tímabili með Hammarby IF.
„Það er gaman að hitta strákana eins og alltaf. Við hlökkum til leiksins," segir Birkir Már.
Íslenska liðið lenti í helli dembu á fyrstu æfingu sinni í dag og það mátti meðal annars heyra í þrumum í nágrenninu á meðan æfingunni stóð.
„Þetta var vissulega svolítið blaut æfing en ég er vanur því frá Bergen," sagði Birkir Már sem spilaði þá með Brann í norsku úrvalsdeildinni. Hann segist því hafa mætt á ófáar æfingarnar í rigningu.
„Ég var í sex ár í Bergen þar sem rigndi á hverjum degi og ég er því vanur þessum aðstæðum," sagði Birkir í léttum tón.
Íslenska liðið æfði í tveimur hlutum í dag þar sem leikmennirnir sem spiluðu á sunnudag tóku mun rólegri æfingu en hinir.
„Menn vöknuðu snemma og voru að ferðast í dag. Þessi æfing snérist því aðallega um það að koma sér í gang," sagði Birkir Már.
Liðið æfir aftur á morgun og hver veit nema að sólin skíni á strákana þá. Spáin er að minnsta kosti hagstæðari fyrir þá sem vilja ekki gegnblotna aftur eins og í dag.

