Erlent

Banksy opnar Dismaland - Myndband

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Banksy þykir mjög uppátækjasamur
Banksy þykir mjög uppátækjasamur Vísir/Getty
Listamaðurinn Banksy hefur opnað skemmtigarð í yfirgefinni útisundlaug í bænum Weston-Super-Mare í Suðvestur-Englandi. Sýningin stendur yfir næstu fimm vikurnar.

Banksy lýsir skemmtigarðinum sem kallast Dismaland sem fjölskylduskemmtigarði sem er ekki við hæfi barna. Hann hafi fengið hugmyndina þegar hann kíkti í gegnum gat á girðingu sem umlukti þessa fyrrum stærstu útisundlaug Evrópu.



Grunur lék á um að Banksy væri með eitthvað í bígerð en enginn vissi nákvæmlega hvað fyrr en nokkrum var boðið á sérstaka forsýningu en á morgun fá íbúar bæjarins að skemmta sér í garðinum. Garðurinn sjálfur opnar á laugardag og er unninn í samvinnu við yfirvöld í Weston-Super-Mare en aðeins fjórir meðlimir bæjarráðsins höfðu vitneskju um hvað væri að gerast.

Það er ýmislegt að sjá í garðinum eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan. Þar ber helst að nefna kastala sem minnir á kastalana sem finna má í Disneylandi. Fastlega má gera ráð fyrir að miðarnir, sem kosta 3 pund hver, seljist fljótt upp en 4.000 gestum er hleypt inn á hverjum degi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×