Innlent

Líkfundur í Laxárdal: Maðurinn ekki á lista lögreglu yfir þá sem er saknað

Birgir Olgeirsson skrifar
Tilkynning um líkfundinn barst til lögreglunnar á Höfn í Hornafirði á þriðjudag.
Tilkynning um líkfundinn barst til lögreglunnar á Höfn í Hornafirði á þriðjudag. Vísir/Pjetur
Búið er að útiloka þá tvo sem eru á lista lögreglu yfir einstaklinga sem er saknað hér á landi í tengslum við rannsóknina á líkfundinum í Laxárdal. Þessir tveir einstaklingar eru Matthías Þórarinsson og þýski ferðamaðurinn Christian Mathias Markus.

Göngufólk gekk fram á lík ungs karlmanns við Sauðdrápsgil í Laxárdal í Nesjum á þriðjudag. Réttarkrufning fór fram á líkinu í gær en samkvæmt heimildum Vísis skoðaði lögreglan lista yfir einstaklinga sem er saknað hér á landi og hefur verið útilokað að um þá tvo sé að ræða.

Hvarf sporlaust

Matthías Þórarinsson hvarf sporlaust skömmu fyrir jól árið 2010. Bíll hans fannst brunninn við Esjurætur í janúar árið 2011. Christian Mathias Markus sást síðast yfirgefa hótelið í Breiðavík í Vesturbyggð þann 18. september í fyrra. Hann var einn á ferð, ók bílaleigubifreið af gerðinni Suzuki Grand Vitara en sú bifreið fannst mannlaus á bifreiðastæðinu við Látrabjarg 23. september í fyrra.

Unnið úr niðurstöðum réttarkrufningar

Vísir ræddi við Svein Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjón lögreglunnar á Suðurlandi, sem sagði kennslanefnd ríkislögreglustjóra vinna úr niðurstöðum réttarkrufningar sem framkvæmd var í gær. Ekki er búið að bera kennsl á lík unga mannsins og er ekki vitað hvernig andlát hans bar að.

Líkið fannst sem fyrr segir við Sauðdrápsgil sem er fyrir miðju Laxárdals við hlið Fálkagils. Ekki eru um alfaraleið að ræða en gönguslóði í Laxárdal liggur rétt við Sauðdrápsgil.

Lögreglan á Suðurlandi biðlar til allra þeirra sem gætu veitt upplýsingar um málið að hringja í síma 824-4250.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×