Sport

Usain Bolt pirraður á umræðunni fyrir HM í frjálsum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt á blaðamannafundinum.
Usain Bolt á blaðamannafundinum. Vísir/Getty
Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum hefst á morgun en frjálsíþróttaheimurinn hefur undanfarnar vikur þurft að glíma við eftirmála fréttanna um mikla ólöglega lyfjaneyslu íþróttamanna í þolgreinum á síðustu stórmótum.

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hefur reynt að verja vinnubrögð sín í lyfjamálum eftir að Sunday Times og þýska sjónvarpsstöðin ARD komust yfir sláandi niðurstöður úr rannsókn á blóðgildum íþróttafólks.

Umrædd rannsókn á blóðsýnum sýndi fram á að 146 verðlaunahafar í þolgreinum á Ólympíuleikum og heimsmeistaramótum frá 2001 til 2012 hafi komist upp með að nota ólögleg lyf en þetta eru þriðjungur allra verðlaunahafa. 55 af þessum 146 unnu gullverðlaun.

Keppnin sjálf sem er framundan á HM í Peking hefur því skiljanlega verið í skugganum síðustu vikurnar og ein stærsta frjálsíþróttastjarna heims, Jamaíkamaðurinn Usain Bolt, er orðinn svolítið pirraður á þessu.

„Það hafa allir einblínt á þetta lyfjahneyksli. Það eina sem ég heyri er "dóping", "dóping", "dóping". Allar spurningarnar sem ég fær eru um lyfjamál," sagði Usain Bolt á blaðamannafundi fyrir heimsmeistaramótið en hann keppir í 100 metra hlaupi strax um helgina.

„Það er mjög leiðinlegt að þetta mál skuli eigna sér alla umræðuna fyrir heimsmeistaramótið og að íþróttakeppnin sjálf komist ekki að. Það er samt ekkert sem ég get gert í því,“ sagði Bolt.

Usain Bolt heldur upp á 29 ára afmælið sitt á morgun. Hann fær verðuga samkeppni frá Justin Gatlin í 100 metra hlaupinu en á meðan Bolt hefur aldrei fallið á lyfjaprófi þá hefur Gatlin fallið tvisvar.

„Ég hleyp bara fyrir sjálfan mig. Fólk segir að ég verð að vinna fyrir íþróttina en það eru margir aðrir íþróttamenn sem eru hreinir. Þannig hefur það verið allan minn feril," sagði Bolt.

"Ég get ekki unnið þetta stríð upp á mitt einsdæmi. Það eru allir sem taka þátt sem bera ábyrgðina og við þurfum að sameinast um að bjarga íþróttinni og fara inn í framtíðina án svindlara," sagði Bolt.

Usain Bolt.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Lyfjahneyksli skekur frjálsíþróttaheiminn

Enska blaðið Sunday Times og þýska sjónvarpsstöðin ARD hafa í fórum sínum gögn sem sýna fram á lyfjamisnotkun margra af fremstu frjálsíþróttamanna og -kvenna heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×