Erlent

Dökk fortíð Housers ratar á yfirborðið eftir skotárásina í kvikmyndahúsi

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá bænastund í Lafayette eftir skotárásina.
Frá bænastund í Lafayette eftir skotárásina. Vísir/EPA
Lögreglan í Bandaríkjunum reynir nú að komast að því hvers vegna John Russell Houser ákvað að hefja skothríð í The Grand 16-kvikmyndahúsinu í borginni Lafayette á föstudag.

Skotárásin átti sér þegar kvikmyndin Trainwreck var sýnd en vitni segja hinn 59 ára gamla Houser ekki hafa sagt orð þegar hann hóf skothríðina. Tveir létu lífið í árásinni og níu særðust áður en Houser fyrirfór sér.

Fjölmiðlar vestanhafs segja Houser hafa verið truflaðan einstakling sem var með Suðurríkjafána fyrir utan heimili sitt og hakakross fyrir utan bar sem hann átti. Hann er einnig sagður hafa komið fyrir dreifimiðum í pósthólf nágranna sinna þar sem hann hvatti þá til að hamstra birgðir því von væri á alþjóðlegu efnahagshruni.

John Russel HouserFréttablaðið/AFP
Fjölskylda hans segir hann hafa glímt við geðræn vandamál og talaði hún fyrir því í dómsal árið 2008 að Houser þyrfti að komast undir læknishendur. Árið 1989 hafði dómari skipað honum í geðmat eftir að hann hafði lagt á ráðin um að myrða lögfræðing. Hafði Houser ráðið brennuvarg til að kveikja í skrifstofu lögfræðingsins.

Houser hafði misst allt fyrir skotárásina. Fjölskylduna, fyrirtækið og heimilið. Þegar átti að bera hann út af heimili sínu ákvað hann að eyðileggja eignina með því að hella steinsteypu í pípulagnirnar og lími í raflagnirnar. Það eina sem var óskemmt á heimili hans var brúðarkjóll fyrrverandi eiginkonu hans.

Yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir vera ekki með Houser undir eftirliti miðað við fortíð hans og þá hafa margir spurt þeirrar spurningar hvers vegna hann fékk að kaupa hálfsjálfvirka skammbyssu þrátt fyrir að honum hafi verið hafnað um byssuleyfi.

Hosuer er sagður hafa lofað Adolf Hitler opinberlega og var undir eftirliti eftir að hafa óskað eftir að hitta fyrrverandi leiðtoga KuKluxKlan, David Duke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×