Lífið

Munu bjóða fólki að eiga í samtali við letur

Guðrún Ansnes skrifar
Guðmundur Úlfarsson mun bjóða uppá öðruvísi upplifun í verslun Geysis í kvöld.
Guðmundur Úlfarsson mun bjóða uppá öðruvísi upplifun í verslun Geysis í kvöld.
„Okkur langar að fá fólk til að taka þátt í samtali, sem allajafna á sér aðeins stað á netinu,“ segir Guðmundur Úlfarsson sem stendur fyrir öðruvísi gjörningi í verslun Geysis við Skólavörðustíg á morgun.

„Hugmyndin er í grunninn sú að tengja saman það sem gerist á bakvið skjáinn við það sem er að gerast í kjötheimum, og skapa þar vettvang fyrir ákveðið samtal sem annars getur verið erfitt að koma á,“ útskýrir Guðmundur.

Guðmundur á Or Type, fyrstu og einu leturútgáfu á Íslandi, ásamt hinum danska Mads Freund Brunse. Þeir hanna leturgerðir og selja en leggja áherslu á að skapa lifandi letur sem ögrar fyrirfram gefnum hugmyndum um hvernig letur skuli vera.

Hingað til hafa grafískir hönnuðir verið langtum stærsti kúnnahópur þeirra. „Þetta er kannski eina fyrirtæki sinnar tegundar hér á landi, en samkeppnin er engu að síður mikil þar sem engin landamæri eru til staðar í þessum geira,“ bætir Guðmundur við.

Gestum og gangandi verður boðið að taka þátt í gjörningnum uppúr klukkan hálf átta annað kvöld, fimmtudag,  í verslun Geysis við Skólavörðustíg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×