Lífið

Magabeltið sem á að minnka mittismálið

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Kim Kardashian með waist trainer.
Kim Kardashian með waist trainer.
Fyrirbærið mittisþjálfi eða Waist trainer er nýjasta æðið í líkamsræktarheiminum úti í heimi. Um er að ræða mittisbelti sem minnir á korsilett og er fest saman með krækjum að framan.

Samkvæmt leiðbeiningum á að nota beltið í tvo tíma á dag til að byrja með og lengja svo tímann eftir því hvað líkaminn þolir. Dæmi eru þó um að stúlkur hafi verið með beltið samfleytt í 23 tíma og þá sofið með það. Einnig á að vera gott að nota beltið á æfingu til að veita stuðning við bak. Ekki er mælt með því að nota beltið ef viðkomandi stundar ekki líkamsrækt.

Skiptar skoðanir eru á tilgangi beltisins, hvort hann sé að veita stuðning við bak eða hjálpa til við að ná réttri líkamsstöðu. En eins og nafnið gefur til kynna þá á beltið með tímanum að minnka mittismál og gefa svokallaðan stundaglasvöxt með því að slaka á oblique-vöðvum eða hliðarkviðvöðvum. Svo er hægt að þrengja beltið eftir því sem mittið minnkar.

Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian setti mynd af sér í haust inn á samfélagsmiðilinn Instagram þar sem hún lofaði Waist trainer í hástert og sagði það notkun hans að þakka að hún væri með grennra mitti núna. 

Alexandra Sif Nikulásdóttir.
„Það er mikið verið að spyrja okkur um þetta, hvort þetta virki,“ segir Alexandra Sif Nikulásdóttir fjarþjálfari hjá Betri árangri og fitness-keppandi. 

„Við erum öll ólík og ég tel að mjótt mitti komi fyrst og fremst frá náttúrunnar hendi. Auðvitað er alltaf gott að hafa stuðning við bakið á æfingum, en til þess eru til öðruvísi belti, sem þú ert ekki með alla æfinguna.

Að mínu mati er þetta kannski fullmikið til að nota á heilli æfingu. Þú lítur út fyrir að vera með grennra mitti þegar þú ert með þetta á þér, en ég mæli heldur með að hreinsa til í mataræðinu og æfa samhliða því heldur en að treysta á þetta.“

Margrét Gnarr.Vísir
„Ég prófaði þetta sjálf í þrjár vikur og notaði á æfingum. Ég var ekki að þrengja þetta þannig,“ segir Margrét Gnarr, fitness-keppandi og fjarþjálfari.

„Það sem þetta á að gera er að slaka á hliðarkviðvöðvunum, þannig að þú sért ekki að nota þá, og þess vegna prófaði ég þetta. Þetta hentaði mér ekki því mér fannst þetta hafa vond áhrif á jafnvægið hjá mér, sem hliðarvöðvarnir hjálpa til með,“ segir Margrét sem hætti notkun eftir þessar þrjár vikur.

Hún segist hafa heyrt sögur af því að stelpur hér heima hafi verið að þrengja beltið mikið í þeim tilgangi að minnka mittið enn meira. „Ég held að það sé ekki sniðugt að þrengja þetta mikið, það getur haft áhrif á líffæri og rifbein.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×