Lífið

Á brettum í Bandaríkjunum

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Þau Jónas og Arna stunda allar tegundir brettaiðkunar. Í Kaliforníu reyndu þau að komast sem mest í sjóinn á brimbretti.
Þau Jónas og Arna stunda allar tegundir brettaiðkunar. Í Kaliforníu reyndu þau að komast sem mest í sjóinn á brimbretti.
Jónas Stefánsson, margmiðlunarfræðingur og leiðsögumaður, og unnusta hans Arna Benný Harðardóttir, íþróttafræðingur, elska að ferðast og gera mikið af því. Nýlega fóru þau í „road-trip“ niður alla vesturströnd Bandaríkjanna og gistu flest allar nætur í bílnum sem þau voru með á leigu.

„Við gistum tvær nætur á hótelum, annars vorum við bara í bílnum þannig að við vorum ekki bundin af neinum gististöðum á ferð okkar sem var eins lítið skipulögð og hægt var,“ segir Jónas.

„Við vorum búin að ákveða leiðina sem við ætluðum okkur að fara en annað ekki. Við lentum í Seattle, keyrðum svo eftir ströndinni til San Diego, fórum svo aðeins inn í landið í gegnum Las Vegas og Utha og svo upp eftir aftur til Seattle. Ef við höfðum mikið að skoða þá keyrðum við styttra þann daginn en ef það var minna að skoða þá keyrðum við lengra. Þetta var sextán daga löng ferð sem var í alla staði frábær.“

Brunað í gegnum eyðimörkina. Jónas og Arna grípa í brettin við hvert tækifæri.
Parið stundar jaðarsport af miklum krafti og Jónas segir þau eiga allt of mikið af áhugamálum en auk þess að vera á brettum af öllu tagi, vélsleðum og mótorhjólum er Arna á kafi í fótbolta og Jónas á skíðum. Þau hafa líka verið dugleg að ferðast saman en þau fóru í lengri útgáfu af Bandaríkjaferðinni þegar þau ferðuðust um Evrópu í bíl í þrjá mánuði.

„Síðustu vetur höfum við farið í skíðaferðir en núna langaði okkur að gera eitthvað nýtt. Okkur langaði að komast í sól og hita og geta sörfað þannig að við ákváðum að skella okkur í þessa ferð. Við sáum mikið af fallegum stöðum og þegar við vorum komin syðst í Kaliforníu þá reyndum við að komast eins mikið í sjóinn og við gátum til að komast í góðar öldur.“

Arches National Park er þjóðgarður með miklar steinmyndanir. Jónas segir þau hafa getað eytt mun meiri tíma þar en þau gerðu.
Jónas segir ekki hægt að nefna neitt eitt sem hafi staðið upp úr í ferð þeirra skötuhjúa en segir það hafa verið magnað að keyra alla strandlengjuna. „Frá Oregon niður að Kaliforníu var landslagið ótrúlega fjölbreytt og það breyttist á klukkutíma fresti fyrir framan okkur. Það var líka gaman að skoða borgirnar og þar stóð San Fransisco upp úr sem falleg og skemmtileg borg en Las Vegas er bara frumskógur út af fyrir sig. Að sjálfsögðu skoðuðum við líka Miklagljúfur og svo hefðum við getað eytt miklu meiri tíma í Utah en við gerðum því þar er mikið af þjóðgörðum sem vert er að skoða. Við fórum í einn slíkan, Arches National Park sem er alveg fáránlega flottur,“ segir Jónas greinilega hrifinn. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×