Lífið

Fjögur afmælisbörn í sömu fjölskyldunni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgólfur Takefusa ásamt hluta af tengdafjölskyldunni. Tengdamóðir hans og tengdafaðir eiga bæði afmæli sama dag og hann. Tengdapabbi hans er tvíburi og eiga fjórir í sömu fjölskyldunni sama afmælisdag.
Björgólfur Takefusa ásamt hluta af tengdafjölskyldunni. Tengdamóðir hans og tengdafaðir eiga bæði afmæli sama dag og hann. Tengdapabbi hans er tvíburi og eiga fjórir í sömu fjölskyldunni sama afmælisdag. vísir/ernir
Björgólfur Takefusa er fæddur 11. maí 1980 og er því 35 ára í dag. Hann býst ekki við því að gera neitt sérstakt á afmælisdaginn. „Nei ég held að það fari nú bara mest í vinnu,“ segir Björgólfur.

Í gær fór hann hins vegar í grillveislu til tengdaforeldra sinna. Svo háttar til að tengdaforeldrar hans eiga báðir sama afmælisdag og hann og tengdapabbi hans er tvíburi. Í fjölskyldunni eru því fjögur afmælisbörn í dag. „Þetta er mjög gaman og mjög sérstakt,“ segir Björgólfur.

Björgólfur er nýbúinn að setja á fót fyrirtæki sem er nokkurs konar matarnetverslun. Félagið heitir Matarinnkaup ehf. og er með meðal annars tvær síður sem heita hvaderimatinn.is og matinnheim.is. Björgólfur segir að þær verði að öllum líkindum sameinaðar undir einni.

„Ég var bara núna nýlega í heimsókn hjá Tesco að kynna mér hvernig þeir gera hlutina,“ segir Björgólfur. Hann segir að það hafi verið alveg ótrúlega skemmtileg lífsreynsla því Bretland sé komið einna lengst með matarnetverslanir og Björgólfur segir að þær séu það sem koma skal.

Þar fór hann á stað sem Bretarnir kalla „darkstore“ en það er í raun verslun þar sem menn og vélmenni sjá um að þjónusta þá sem kaupa inn á netinu. Þar er raðað í körfur, meðal annars eftir því hvenær er pantað og hvernig á að keyra út og annað fleira. „Þetta er ævintýralega flott og við eyddum heilum degi þar og vorum að skoða. Þetta var alveg ótrúlega gaman,“ segir Björgólfur.

Björgólfur er þekktastur fyrir það að vera knattspyrnumaður. Hann sleit barnsskónum hjá Þrótti og spilaði með liðinu til 2003. En hann hefur líka spilað með Fylki, KR, Víkingi, Val og Fram. Hann segist í vetur hafa spilað með félagsskap sem kallar sig FlairOldboys Þróttur. „Það var hentugt af því að ég var með þeim yngstu og sprækustu,“ segir Björgólfur. En upp á síðkastið hefur hann verið að mæta á æfingar hjá meistaraflokki Þróttar. Hann segir að sig hafi einfaldlega dauðlangað til að mæta og það hafi gengið ágætlega. „Ég er búinn að skora nokkur mörk á æfingum,“ segir hann.

Björgólfur segist hafa farið á leikinn í fyrradag þar sem Þróttur vann 4-1 og þau úrslit hafi verið mjög góð afmælisgjöf. Hann segir jafnframt að það sé mjög skemmtileg og heilbrigð stemning í herbúðum Þróttara.

Það hafa líka orðið fleiri stórtíðindi í lífi Björgólfs að undanförnu, því hann er nýlega orðinn pabbi. Hann kann ákaflega vel við það hlutverk. „Mér finnst þetta í rauninni bara mestu forréttindi í heimi og maður er bara núna byrjaður í vissum skóla sem hættir ekkert. Svo er maður bara að reyna að geta eitthvað sem pabbi,“ segir Björgólfur. Aðspurður hvort litla stelpan sé kominn með nafn þá segir hann að hún muni bera nafnið Takefusa en annað hafi ekki verið ákveðið ennþá varðandi nafnið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×