Veggir voru brotnir niður, eldhúsinnrétting færð á milli herbergja, flísalagt, málað og gólfið í íbúðinni flotað.
„Gólfið er pínu gróft en við fílum það. Það eru smá „skemmdir“ í gólfinu en það er bara karakter.“
Eldhúsið er uppáhaldsstaður Hebu í íbúðinni. Eldhúsinnréttingin er upprunaleg og var sérsmíðuð inn í annað herbergi í íbúðinni og færð í framkvæmdunum. „Það er ótrúlega gaman að elda hér og við lögðum mikið upp úr eldhúsinu.“

Halldór lærði húsgagnasmíði og er stóllinn sem stendur í stofunni hannaður og smíðaður af honum.
„Okkur þykir svo vænt um hann,“ segir Heba og bætir við að mikil vinna og spekúlasjónir hafi farið í smíði stólsins.

„Þessi eru notuð á hverjum degi. Þetta eru systkini, Rocky og Sylvía,“ segir hún og hlær.

Litla hansahillan hangir á vegg í eldhúsinu og geymir marga af uppáhaldshlutum húsráðenda.
„Við keyptum íbúðina með búslóðinni, fundum þessa hillu og erum alveg ótrúlega ánægð með hana.“

Línurnar í kjötskurðarbrettinu eru eftirmynd af götunum í hverfinu.
„Ég held mjög mikið upp á þetta bretti. Við fengum það í jólagjöf og svo fluttum við í Norðurmýrina tveimur árum seinna.“

Goccia-kaffiborðið var keypt notað í Mílanó á gjafverði og setur svip á stofuna.
Borðið var hannað árið 1944 af Isamu Noguchi og hefur svo sannarlega staðist tímans tönn.