Erlent

Herða reglur um hvernig öðlast megi danskan ríkisborgararétt

Atli Ísleifsson skrifar
Inger Støjberg er ráðherra innflytjendamála í Danmörku.
Inger Støjberg er ráðherra innflytjendamála í Danmörku. Vísir/EPA
Danska ríkisstjórnin hefur kynnt nýjar og hertari reglur um hvað þurfi til til að öðlast danskan ríkisborgararétt.

Reglurnar eru niðurstöður samningaviðræðna milli stjórnarflokksins Venstre og stjórnarandstöðuflokkanna Danska þjóðarflokksins, Íhaldsflokksins, Frjálslynda bandalagsins og Jafnaðarmannaflokksins.

Í frétt danska ríkisútvarpsins kemur fram að samkvæmt nýjum reglum verði farið fram á aukna tungumálakunnáttu umsækenda, aukna þekkingu á danskri sögu og samfélagsgerð og auknar kröfur um að umsækjendur séu sjálfir sér nægir.

„Það á að vera mjög sérstakt að fá danskan ríkisborgararétt og því er eðlilegt að setjum strangari reglur um það hvenær fólk má kalla sig danska ríkisborgara,“ segir Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála í Danmörku.

Jafnaðarmannaflokkurinn fagnar því að samkomulag hafi náðst um hertari reglur. „Það eru of margir sem hafa fengið ríkisborgararétt án þess að kunna dönsku,“ segir Astrid Krag, talsmaður Jafnaðarmannaflokksins í málefnum innflytjenda.

Samkvæmt hinum nýju reglum lengist jafnframt tíminn þar til umsækjendur geta sótt um ríkisborgararétt, hafi þeir gerst brotlegir í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×