Erlent

Halda áfram niðurrifi Frumskógarins í Calais

Atli Ísleifsson skrifar
Kveikt var í einhverjum skýlum í flóttamannabúðunum.
Kveikt var í einhverjum skýlum í flóttamannabúðunum. Vísir/AFP
Vinnuflokkar eru nú á leið á ný til borgarinnar Calais í Frakklandi til þess að taka niður hluta flóttamannabúðanna sem komið hefur verið upp í hverfi í borginni sem kallað hefur verið Frumskógurinn í Calais.

Til átaka kom í nótt á milli lögreglu og hælisleitenda sem hentu steinum en lögreglumenn beittu táragasi á móti en aðgerðin þykir afar umdeild. Kveikt var í skýlum á svæðinu.

Yfirvöld segja að skýlin, sem hælisleitendurnir komu sér upp sjálfir, séu ekki örugg og vilja flytja fólkið á aðra staði í borginni.

Íbúarnir hafa þó þrjóskast við og óttast að þeir verði látnir sækja um hæli í Frakklandi sem þeir vilja alls ekki, því flestir vilja þeir halda för sinni áfram til Bretlands.

Í frétt BBC kemur fram að flestir flóttamennirnir komi frá ríkjum Miðausturlanda, Afganistan og Afríku og hafi margir greitt smyglurum háar fjárhæðir til að komast yfir Ermarsundið til Bretlands.

Frönsk yfirvöld áætla að um þúsund flóttamann hafast við í búðunum þó að talsmenn hjálparsamtaka segja fjöldann mun hærri.

Um hundrað skýli voru tekin saman í gær og verður starfinu fram haldið í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×