Erlent

Engum duldist hvað á gekk í Auschwitz

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Reinhold Hanning er orðinn 94 ára og hefur verið í hjólastól við réttarhöldin, þótt upphaflega hafi hann gengið inn í réttarsalinn í síðasta mánuði.
Reinhold Hanning er orðinn 94 ára og hefur verið í hjólastól við réttarhöldin, þótt upphaflega hafi hann gengið inn í réttarsalinn í síðasta mánuði. Fréttablaðið/EPA
„Þegar maður er þarna í tvö ár, þá áttar maður sig alveg á því hvað er í gangi,“ sagði Jakob Wendel, 92 ára gamall fyrrverandi fangavörður í Auschwitz við réttarhöld yfir félaga sínum, hinum 94 ára gamla Reinhold Hanning.

Báðir voru þeir kornungir félagar í hinum alræmdu SS-sveitum þýskra nasista.

Réttarhöldin hófust í síðasta mánuði í borginni Detmold, og almennt er talið að þetta séu líklega síðustu réttarhöldin yfir þýskum nasista vegna glæpa frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Hanning er sakaður um að hafa átt hlutdeild í að myrða að minnsta kosti 170 þúsund manns. Hann er þó ekki sakaður um að hafa tekið beinan þátt í neinu morði, heldur hafi hann stöðu sinnar vegna sem fangavörður verið meðsekur.

Sjálfur hefur Hanning ekkert viljað tjá sig við réttarhöldin, en í gær var Wendel kallaður til vitnis og sá hann enga ástæðu til annars en að segja frá því sem hann upplifði í útrýmingarbúðunum.

„Ég var vörður,“ sagði hann. „Við stóðum þarna til að hindra að einhver færi að flýja. Ef svo færi, þá áttum við auðvitað að skjóta. En fólkið var svo hrætt. Það flúði ekki nokkur maður.“

Wendel var sjálfur dreginn fyrir dómstól árið 2014 en málið var fellt niður vegna þess að hann hlaut fimm ára fangelsisdóm í Póllandi árið 1946 og lauk afplánun hans.

Árið 2014 sagðist hann hafa góða samvisku vegna þess að hann hefði ekki gert neitt rangt: „Ég var fórnarlamb stjórnarinnar líka.“

Önnur vitni í réttarsalnum í gær sáu hins vegar enga ástæðu til að fyrirgefa þeim Hanning og Wendel nokkurn skapaðan hlut.

„Það voru menn eins og þú sem gerðuð helvítið í Auschwitz mögulegt. Menn sem horfðu á og hjálpuðuð til án þess að spyrja spurninga,“ sagði Angela Orosz Richt-Bein í réttarsalnum. Hún fæddist í Auschwitz, þrátt fyrir að læknirinn alræmdi, Josef Mengele, hefði gert ljótar tilraunir á móður hennar, meðal annars sprautað ætandi efnum beint inn í leg hennar meðan á meðgöngunni stóð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×