Menning

Tryggvi nær að magna upp þessa sögu með tónlist sinni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Formaðurinn segir öllum sem hann hittir að koma á tónleikana,“ segir Magnús kórstjóri sem vonar líka að sem fæstir missi af þeim.
"Formaðurinn segir öllum sem hann hittir að koma á tónleikana,“ segir Magnús kórstjóri sem vonar líka að sem fæstir missi af þeim. Vísir/Stefán
Það er með hálfum huga sem ég hringi í Magnús Ragnarsson á miðjum degi til að forvitnast um tónverkið Heimsljós eftir Tryggva M. Baldvinsson sem Fílharmónía ætlar að syngja annað kvöld klukkan 20. Auk þess að leiða þá sveit er hann nefnilega stjórnandi kammerkórs Áskirkju og organisti.

En hann kveðst hafa nægan tíma í viðtal. „Oft er rólegt í organistastarfinu í kring um stóra tónleika hjá kórunum mínum. Það er eins og einver æðri máttur hlífi mér,“ útskýrir hann og kveðst einmitt hafa verið að lesa trúarlega texta í Heimsljósi Halldórs Kiljan.

„Ólafur Kárason verður fyrir trúarlegri upplifun sem barn, hann leggst í grasið og finnur kraftbirtingarhljóm guðdómsins – mér skilst að Halldór hafi upplifað slíkt sjálfur sem krakki, hann var auðvitað skáldhneigður, fannst fegurðin mikilvæg og skynjaði náttúruna sterkt.

Þegar ég rifja upp þessa sögu kemst ég við og Tryggvi Baldvins nær að magna hana með tónlistinni. Hann byggir tónverkið upp sem sálumessu þar sem lokakaflinn er um frið og paradís – eins og í sögunni þegar Ólafur gengur á jökulinn þar sem fegurðin mun ríkja ein.“

Söngsveitin Fílharmónía er sjötíu manna kór, auk hennar kemur fram 28 manna hljómsveit og einsöngvararnir Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran og Snorri Wium tenór. „Tryggvi hafði þessa tvo söngvara í huga þegar hann samdi verkið og það kom ekkert annað til greina en að hóa í þá aftur,“ segir Magnús.

 

Magnús segir hafa staðið til að flytja Heimsljós aftur, alveg frá 2010, nú sé komið að því. Hann kveðst vona að sem flestir verði vitni að þeim viðburði. „Formaðurinn okkar segir öllum sem hann hittir að koma á tónleikana og einn spurði: „Er þetta svona nútímaverk sem er gaman að flytja en ekki eins gaman að hlusta á?“ En þegar honum var leyft að heyra bút úr verkinu áttaði hann sig á hvað það er fallegt, dramtískt og flott.“



Frá höfundinum:

Ég hef sennilega verið 18 ára þegar ég las Heimsljós í fyrsta sinn. Ég man vel hve mikil áhrif bókin hafði á mig. Ég hafði aldrei fyrr lesið texta sem hreif mig jafn sterkt, aldrei séð íslenskri tungu verið beitt jafn listilega og þar. Bókin var fyrir mér sannkölluð hugljómun.

Hinum trúarlega tóni sem svífur yfir vötnum í sögunni um Ólaf Kárason fannst mér best komið til leiðar í formi sálumessu, því að efnistök bókarinnar ríma vel við hina þrjá meginþætti sálumessunnar: ákall, uppgjör og friðþægingu.

Með þessu verki er ég alls ekki að reyna að rekja sögu Ólafs Kárasonar, enda er textinn í tónverkinu tekinn héðan og þaðan og myndar engan efnislegan söguþráð. Mín athygli er á textanum sjálfum og þeim töfrum sem þar felast.



Heimsljós var áður flutt af Fílharmóníu undir stjórn Magnúsar árið 2010 og hann segir tilfinningarnar sérstakar gagnvart verkinu. „Ég man svo vel þegar ég hringdi í Tryggva í maí 2008, tveimur árum áður en kórinn varð fimmtíu ára, og spurði hann hvort hann væri til í að semja verk fyrir kór og hljómsveit.

Það er ekki á hverjum degi sem tónskáld fá svoleiðis símtöl og við vorum báðir kátir með þessa hugmynd. Tryggvi hafði alveg frjálsar hendur og ákvað á endanum að nota kafla úr Heimsljósi sem hann las þegar hann var 18 ára og varð snortinn af.

Við í Fílharmóníu fengum verkið í bútum eftir áramót 2010 og kórfélagarnir urðu strax hrifnir af því og töluðu mikið um það. Þeir sem ekki höfðu lesið bókina drifu í því.

Síðan hefur orðið mikil endurnýjun í kórnum en allir hafa heyrt um flutning Heimsljóss og eru ótrúlega spenntir að taka þátt í honum núna. Mér finnst svo gaman að upplifa svona mikla ánægju og gleði hjá kórfélögunum og er eins og stoltur kórpabbi. En ég á eftir að þurfa að halda aftur af tárunum þegar ég fer að stjórna því ég verð fyrir svo miklum hughrifum.“



Magnús segir hafa staðið til að flytja Heimsljós aftur, alveg frá 2010, nú sé komið að því. Hann kveðst vona að sem flestir verði vitni að þeim viðburði. „Formaðurinn okkar segir öllum sem hann hittir að koma á tónleikana og einn spurði: „Er þetta svona nútímaverk sem er gaman að flytja en ekki eins gaman að hlusta á?“ En þegar honum var leyft að heyra bút úr verkinu áttaði hann sig á hvað það er fallegt, dramtískt og flott.“

 

Frá höfundi:

 

Ég hef sennilega verið 18 ára þegar ég las Heimsljós í fyrsta sinn. Ég man vel hve mikil áhrif bókin hafði á mig. Ég hafði aldrei fyrr lesið texta sem hreif mig jafn sterkt, aldrei séð íslenskri tungu verið beitt jafn listilega og þar. Bókin var fyrir mér sannkölluð hugljómun.

Hinum trúarlega tóni sem svífur yfir vötnum í sögunni um Ólaf Kárason fannst mér best komið til leiðar í formi sálumessu, því að efnistök bókarinnar ríma vel við hina þrjá meginþætti sálumessunnar: ákall, uppgjör og friðþægingu.

Með þessu verki er ég alls ekki að reyna að rekja sögu Ólafs Kárasonar, enda er textinn í tónverkinu tekinn héðan og þaðan og myndar engan efnislegan söguþráð. Mín athygli er á textanum sjálfum og þeim töfrum sem þar felast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×