Innlent

Vilja reisa háa öryggisgirðingu og risafánastöng á nýrri lóð bandaríska sendiráðsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svona líta fyrirhugaðar breytingar á lóðinni við Engjateig 7 út.
Svona líta fyrirhugaðar breytingar á lóðinni við Engjateig 7 út. Mynd/Skjáskot
Bandaríska sendiráðið hér á landi vill fá að reisa átján metra háa fánastöng og allt að 4,5 metra háa öryggisgirðingu í kringum lóð Engjateigs 7 en þangað stendur til að flytja starfsemi sendiráðsins.

Húsið við Engjateig 7 hýsti áður höfuðstöðvar verktakafyrirtækisins Ístak en hefur staðið autt í nokkurn tíma. Árið 2014 undirrituðu forsvarsmenn bandaríska sendiráðsins og Ístak kaupsamning á húsinu og lóð þess við Engjateig. Ljóst er að gera þarf nokkrar breytingar á lóðinni og húsnæðinu áður en að hægt er að flytja starfsemi sendiráðsins frá núverandi staðsetningu á Laufásvegi.

Sjá einnig: Bandaríska sendiráðið flytur: „Þau hafa verið ágætir nágrannar“

Í tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 7 við Engjateig sem nú liggur frammi og hægt er að gera athugasemdir við kemur fram að aðkomu inn á lóðina verði breytt auk þess sem veitt er heimild til þess að reisa einnar hæðar hliðhús við aðkomuna að lóðinni.

Gert er ráð fyrir að þriggja metra há öryggisgirðing verði reist í kringum lóðina en leyfileg hámarkshæð hennar verður 4,5 metrar. Tekið er fram að verði starfsemi hætt eða breytt þurfi lóðarhafi að fjarlægja öryggisgirðinguna á eigin kostnað. Þá vill sendiráðið einnig fá að reisa átjan metra háa fánastöng.

Bílastæðum verður fækkað úr 57 í 12 auk þess sem leyfilegt verður að að nota niðurgrafin rými í kjallara sem áður var nýtt sem bílakjallari fyrir stigahús, tæknirými, sorprými eða geymslur.

Sjá má tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 7 við Engjateig hér. 


Tengdar fréttir

Varnargirðing fyrir utan bandaríska sendiráðið

Lögreglan hefur sett upp varnargirðingu fyrir utan bandaríska sendiráðið en yfir fimmtán hundruð manns hafa skráð sig á mótmæli fyrir utan sendiráðið sem hefjast núna klukkan fimm. Það er félagið Ísland-Palestína sem stendur fyrir mótmælafundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×