Erlent

Bandaríkin og Íran skiptast á föngum

Birgir Olgeirsson skrifar
Jason Reizian var á meðal þeirra sem fengu frelsi í dag.
Jason Reizian var á meðal þeirra sem fengu frelsi í dag. Vísir/EPA
Íranir hafa sleppt fjórum bandarískum föngum úr haldi. Er þetta hluti af fangaskiptum Írans og Bandaríkjanna en Bandaríkjamennirnir sem fengu frelsi eru blaðamaður Washington Post, Jason Rezian, fyrrverandi meðlimur bandaríska sjóhersins Amir Hekmati, presturinn Saeed Abedini og Nosratollah Khosravi Roodsari. Í staðinn slepptu Bandaríkin sjö írönskum föngum.

Ríkin höfðu átt í leynilegum samningaviðræðum um þessi skipti í rúmt ár, að sögn bandarískra yfirvalda. Fimmta Bandaríkjamanninum var einnig sleppt úr haldi, neminn Matthew Trevithick, en hann var ekki hluti af skiptunum.

Bandaríkin samþykktu einnig að falla frá ákærum gegn fjórtán Írönum til viðbótar. Samkomulagið milli þjóðanna  kveður einnig á um að írönsk stjórnvöld hjálpi yfirvöldum í Bandaríkjum að finna Robert Levinson sem hvarf í Íran árið 2007. Levinson var fyrrverandi fulltrúi bandarísku alríkislögreglunnar FBI og starfaði sem verktaki á vegum leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, í Íran.

Írönsk yfirvöld hafa neitað því að vera með hann í haldi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×