Skoðun

Með hugarfar sigurvegara?

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir skrifar
„Uppbygging aðstöðu, þjálfun og menntun er banvæn blanda fyrir árangur.“ Þetta sagði okkar ástkæri Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands í knattspyrnu, m.a. á aðalfundi SAF í mars.

Sigurvegari trúir því að með réttri þjálfun, uppbyggingu og góðum undirbúningi sé allt mögulegt. Það þurfa allir að líta í eigin barm til að svara því hvort þetta hugarfar sé ráðandi, ekki benda á næsta mann heldur hugsa: Hvað get ég gert í dag til að efla mig enn frekar? Eitt er víst að verkefnin eru næg og þar af leiðandi endalaus tækifæri, en við verðum að vera tilbúin til að eiga möguleika á að nýta þau sem best.

Að vinna að stöðugum úrbótum í rekstri og koma auga á vannýtt tækifæri krefst þjálfunar og tíma. Þessu ætlar Íslenski ferðaklasinn ásamt Nýsköpunarmiðstöð Íslands og öflugum bakhjörlum að svara og bjóða stjórnendum í starfandi ferðaþjónustufyrirtækjum að taka þátt í verkefni á landsvísu sem nefnist Ratsjáin og hefur göngu sína á haustmánuðum. Í verkefninu gefst stjórnendum kostur á að staldra við og rýna í rekstur sinn, koma auga á tækifæri til vöruþróunar, hámörkunar á arðsemi, innleiðingar hönnunarhugsunar í starfsemina ásamt öllum þeim fjölmörgu atriðum sem rekstur ferðaþjónustufyrirtækis hefur í för með sér á eins miklum vaxtatímum og við upplifum nú.

Svæðisbundin þróun er eitt af stóru verkefnunum í ferðaþjónustu. Betri dreifing ferðamanna er oft til umræðu en auðvitað gerir það enginn beint, það er hinsvegar hægt að dreifa fjárfestingum og þannig er hægt að dreifa álagi. Með framlagi úr framkvæmdasjóðum, flugþróunarsjóði og fjárfestum sem líta á það sem tækifæri að nýta auðlindir sem víðast þá náum við betri stýringu, sú vegferð er hafin en hún tekur auðvitað tíma.

Vegvísir ferðaþjónustunnar er metnaðarfullt plagg unnið í sameiningu af stjórnvöldum og atvinnugreininni sem segir til um núverandi stöðu og aðgerðir til framtíðar. Að stilla saman grunnþætti opinberra aðila og síðan fyrirtækja sem eru á fljúgandi siglingu í þróun og uppbyggingu er ákveðin kúnst. Það er eðli þróunar að hún tekur á og ekkert óeðlilegt við titring hér og þar, mikilvægast er samt að staðna ekki í niðurrifi og pirringi heldur takast á við næstu verkefni sem bíða, samstíga.

Stöndum saman sem eitt eru skilaboð Íslenska ferðaklasans – höfum trú, staðfestu, og styrk til að halda ferðaþjónustu áfram sem þeirri mikilvægu efnahagslegu stoð sem hún er í íslensku samfélagi, ekki bara út árið eða það næsta, heldur til frambúðar.




Skoðun

Sjá meira


×