Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ákveður í dag hvort fulltrúar þess verði í Aleppo til að fylgjast með brottflutningi saklausra borgara frá borginni. CNN greinir frá.
Fulltrúar Frakklands í ráðinu hafa lagt til að eftirlitsmenn á vegum SÞ fylgist með því hvernig sé staðið að brottflutningnum og hvort að öryggi borgara sé raunverulega tryggt. Lagt er til að starfslið Sameinuðu þjóðanna sem þegar er á vettvangi fái verkefnið í hendurnar.
Sýrlenski stjórnarherinn fái þannig fimm daga frá því tillagan er samþykkt til þess að tilkynna ráðinu um það hvort að eftirlitsmönnum verði gefinn aðgangur að svæðinu.
Talið er líklegt að Rússar muni leggjast gegn tillögunum en Rússar hafa sex sinnum beitt neitunarvaldi sínu í málefnum Sýrlands frá því að borgarastyrjöldin þar í landi hófst.
Tugþúsundir saklausra borgara eru enn fastir í austurhluta borgarinnar en fréttir bárust af því í gær að samkomulag hefði náðst á milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna um brottflutning þeirra frá svæðinu eftir að brottflutningar voru stöðvaðir fyrir helgi.

