Enski boltinn

Gylfi enn og aftur á skotskónum | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði mark Swansea City þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Crystal Palace á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Gylfi kom Swansea yfir á 13. mínútu með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu sem Wayne Hennessey í marki gestanna réði ekki við.

Markið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Þetta var sjöunda mark Gylfa í úrvalsdeildinni í ár en hann er þegar búinn að jafna markaskor sitt frá því á síðasta tímabili.

Fimm af þessum sjö mörkum hafa komið í síðustu sex deildarleikjum Swansea en Gylfi hefur verið sjóðheitur að undanförnu.

Markið hans Gylfa dugði þó ekki til sigurs því Scott Dann jafnaði metin fyrir Crystal Palace á annarri mínútu seinni hálfleiks og þar við sat.

Swansea hefur fengið átta stig út úr síðustu fjórum leikjum sínum en liðið er í 16. sæti deildarinnar með 27 stig. Palace er í því tólfta með 32 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×