Erlent

Lögregla yfirheyrir fjölskyldu morðingjans

Atli Ísleifsson skrifar
Mevlut Mert Altintas hafði starfað sem lögreglumaður í tvö og hálft ár.
Mevlut Mert Altintas hafði starfað sem lögreglumaður í tvö og hálft ár. Vísir/AFP
Talsmenn tyrkneskra yfirvalda segja allt benda til þess að hinn 22 ára Mevlut Mert Altintas, sem myrti Andrei Karlov, sendiherra Rússlands í Tyrklandi, í gær hafi haft tengsl við hreyfingu klerksins Fetullah Gülen.

Lögregla hefur á síðustu klukkustundum yfirheyrt fjölskyldu og vini mannsins.

Altintas starfaði sem óeirðalögreglumaður og var á frívakt þegar hann banaði sendiherranum. Hann hafði starfað sem lögreglumaður í hálft þriðja ár.

Á myndabandsupptökum sér maður Altintas skjóta úr byssu sinni og hrópa: „Ekki gleyma Aleppo! Ekki gleyma Sýrlandi! Allahu akbar (Guð sé mikill).“

Í frétt SVT kemur fram að foreldrar mannsins, systir, tveir ættingjar til viðbótar og nokkrir vinir hafi verið yfirheyrðir í dag en óljóst sé hvað hafi þar komið fram.

Tyrknesk yfirvöld segja „sterkar vísbendingar“ um að maðurinn hafi verið stuðningsmaður Gülen, sem Erdogan Tyrklandsforseti sakar um að hafa skipulagt misheppnaða valdaránstilraun í landinu í sumar.

Gülen, sem býr í Bandaríkjunum, hefur neitað að hafa átt nokkurn þátt í morðinu.

Utanríkisráðherrar Rússlands, Tyrklands og Írans munu funda í Moskvu í dag, til að ræða ástandið í Sýrlandi. Morðið á sendaherranum mun þó vafalaust einnig koma til tals.

Erdogan hefur sagt að árásinni hafi verið ætlað til að skaða samskipti Rússlands og Tyrklands.


Tengdar fréttir

Rússar og Tyrkir segja morðið hryðjuverk

Tyrkneskur óeirðalögreglumaður skaut sendiherra Rússlands í landinu til bana í gær. Ekki er vitað hvort árásarmaðurinn stóð einn að árásinni eða hvort hann eigi bakland í einhverjum samtökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×