Innlent

Ekki ákveðið hvernig verja eigi fjármagninu

Sveinn Arnarson skrifar
Flytja þarf út þúsund tonn til viðbótar að mati sláturleyfishafa.
Flytja þarf út þúsund tonn til viðbótar að mati sláturleyfishafa. Vísir/Valli
Ekki hefur enn verið ákveðið hvernig þeim eitt hundrað milljónum sem á að verja til að styðja útflutning lambakjöts verður varið nákvæmlega. Markaðsráð kindakjöts mun fá fjármagnið til nýtingar þó frumvarpið geri ráð fyrir að þeir fari til verkefnisins Matvælalandið Ísland.

þórarinn ingi Pétursson
„Það er fullsnemmt að segja til um hvernig eigi að gera þetta því þetta er ekki komið enn þá,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og formaður markaðsráðs kindakjöts. „Nú er vinna hafin við að greina það hvað hægt er að gera, síðan eigum við eftir að fara nákvæmlega ofan í það hvernig við nýtum fjármagnið.“

Í fjáraukalögunum er sérstaklega tilgreint að verulegt tap sé á sölu kindakjöts og því þurfi að bregðast við. Bent er á að Evrópusambandið og Bandaríkin kaupi mikið magn landbúnaðarafurða þegar hart er í ári og erfiðleikar á mörkuðum til að sporna við verðfalli. Því eru þessar 100 milljónir í anda þess sem gert er beggja vegna Atlantshafsins.

Koma þarf út um eitt þúsund tonnum af framleiðslu ársins í ár til að verðlag haldist stöðugt hér á landi og ekki safnist fyrir birgðir. Um 10.400 tonn voru framleidd í síðustu sláturtíð og 60 prósent þeirrar framleiðslu fara á innanlandsmarkað.

„Við í markaðsráðinu báðum ekki um þetta fjármagn sem slíkt en okkur er falið það verkefni að koma þessum fjármunum í þann farveg að þeir liðki til fyrir útflutningi,“ segir Þórarinn.

Heimildir Fréttablaðsins herma að samningaviðræður hafi verið hafnar í haust við atvinnuvegaráðuneytið um fjármagn til að sporna við erfiðri stöðu og að nokkrir fundir hafi verið haldnir milli sláturleyfishafa, Landssamtaka sauðfjárbænda og ráðuneytisins. Hafi útflutningsaðilar óskað eftir um þrefaldri þeirri upphæð sem þeir fá nú samkvæmt fjáraukalögum.

Í ofanálag fær Matvælalandið Ísland 400 milljónir til að vinna að útflutningi landbúnaðarafurða á Íslandi næstu árin.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×