Menning

Þetta var brjáluð vinna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Það þarf bara góðar myndavélar,“ segir Svanhildur.
"Það þarf bara góðar myndavélar,“ segir Svanhildur. Vísir/Stefán
„Sem líffræðingur hef ég unnið hjá Hafrannsóknastofnun í 23 ár, meðal annars við botnþörungarannsóknir. Þar var fleygt myndavél í fangið á mér en ég kunni lítið með hana að fara.

Mig langaði hins vegar alltaf að fara í mastersnám og datt í hug að sérhæfa mig í líffræðiljósmyndun. Ég fann einn skóla sem bauð upp á slíkan kúrs, það var Nottingham-háskóli.“

Þannig útskýrir Svanhildur Egilsdóttir líffræðingur hvernig það kom til að hún bætti ljósmyndun í menntun sína.





Djúpsjávar ígulker, Gracelichinus alexandri, sem veiddist við Reykjaneshrygg í haustleiðangri á Árna Friðrikssyni 2015. Mynd/Svanhildur Egilsdóttir
Svanhildur segir einungis góðar myndavélar duga í líffræðiljósmyndun og að í skólanum hafi hún fengið þjálfun í notkun smásjármyndavéla, víðsjár og rafeindasmásjár.

Námið var býsna strangt, að hennar sögn. „Þetta var brjáluð vinna. Ég þurfti að gefa út bæði bók og tímarit og svo var ég í þriggja manna hópi sem gerði saman stuttmynd, fyrir utan auðvitað að læra undirstöðuatriði ljósmyndunar og notkun helstu myndvinnsluforrita. Sem líffræðiljósmyndari þarf maður líka að kunna skil á kvörðum og ýmsum greiningaratriðum í hverri myndatöku fyrir sig.“





Þessi mynd var tekin á nýafstöðnum aðalfundi Ljósmyndarafélagsins. Á henni eru Lýður Geir Guðmundsson og Guðmundur Skúli Viðarsson úr sveinsprófsnefnd, Gabriel Rutenberg, Sigurgeir Sigurðsson, Jóhanna Ásgeirsdóttir og Jón Lindsay, nýútskrifaðir sveinar, Svanhildur Egilsdóttir og Lárus Karl Ingason formaður.Mynd/Ljósmyndarafélag Íslands
Svanhildur er á fimmtugsaldri, hún á eiginmann og fjögur börn og tók manninn og yngsta barnið, fjórtán ára strák, með til Englands. „Við vorum úti í eitt ár og það var lærdómsríkur og skemmtilegur tími. Maðurinn minn gat tekið vinnuna með sér og ég var svo heppin að fá leyfi úr mínu starfi til að fara í þetta nám,“ segir Svanhildur sem kveðst nýta hina nýju kunnáttu í vinnunni.

„Ég fór til dæmis nýlega í leiðangur þar sem ég var eingöngu að taka myndir af skeljum og kuðungum. Þær eru sendar út til greiningar. Sú aðferð verður ábyggilega notuð sífellt meira í stað þess að hafa sérfræðinga með um borð.

Krafan eykst um að stofnanir eins og Hafrannsóknastofnun sýni frá leiðöngrum sínum á myndböndum jafnóðum. Mitt nám fólst, að hluta til, í því að gera fólk hæfara til að miðla slíkum upplýsingum á glöggan hátt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.