Enski boltinn

Fyrsta fullkomna umferð Liverpool-stuðningsmannsins síðan í maí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn og stjórinn Jürgen Klopp fagna sigurmark Adam Lallana.
Leikmenn og stjórinn Jürgen Klopp fagna sigurmark Adam Lallana. Vísir/Getty
Liverpool vann dramatískan sigur á Norwich City í ensku úrvalsdeildinni um helgina en töp tveggja erkifjenda sáu enn frekar til þess að flestir stuðningsmenn Liverpool mættu örugglega skælbrosandi í vinnuna í morgun.

Liverpool vann 5-4 endurkomusigur á Norwich City í ótrúlegum leik þar sem liðið lenti 3-1 undir í byrjun seinni hálfleiks og skoraði síðan sigurmarkið eftir að hafa fengið á sig jöfnunarmark í uppbótartíma.

Það sem gerði þessa helgi enn betri fyrir stuðningsmenn Liverpool og bæði erkifjendurnir í Everton og Manchester United töpuðu sínum leikjum í umferðinni. Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City unnu Everton á Goodison Park og Manchester United tapaði 1-0 á heimavelli á móti Southampton.

Það voru búnar að fara fram 25 umferðir í röð síðan að Liverpool stuðningsmaðurinn fékk að upplifa svona fullkomna umferð eða síðan 35. umferðin fór fram á 2014-15 tímabilinu.

Þá var það Steven Gerrard sem tryggði Liverpool 2-1 sigur á Queens Park Rangers í leik liðanna í byrjun maí en það var síðasta sigurmark hans í búningi Liverpool.

Everton tapaði á sama tíma 3-2 fyrir Aston Villa á útivelli en seinna um kvöldið urðu síðan Manchester United menn að sætta sig við 1-0 tap á heimavelli á móti West Bromwich Albion þar sem Jonas Olsson skoraði eina mark leiksins á 63. mínútu.

Þetta var bara önnur umferðin á tímabilinu þar sem Liverpool vann sinn og Manchester United tapaði en líka bara önnur umferðin þar sem Liverpool vann sinn leik og Everton tapaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×